138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

sjúkratryggingar.

199. mál
[17:30]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að hér er um einfalda frestun á gildistöku að ræða, nánar tilgreint er verið að fresta því um eitt ár að Sjúkratryggingastofnun taki yfir samninga við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins, þar á meðal Landspítalann, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri o.s.frv. en einnig samninga við sveitarfélög sem annast heilbrigðisþjónustu og aðra sem reka hjúkrunarheimili. Það sem hv. þingmaður gerði hér að aðalumræðuefni í máli sínu er í rauninni minnsti þátturinn sem verið er að fresta.

Ástæðan fyrir þessari frestunartillögu er einföld. Sjúkratryggingar eru ekki í stakk búnar til að taka við þessari samningagerð eins og stendur. Það stóð til að efla Sjúkratryggingastofnun þegar hún var sett á laggirnar og ég veit að hv. þingmaður man eftir því að ég barðist mikið gegn því að hún væri sett á laggirnar en það stóð til m.a. að efla sérfræðiþekkingu þar með 400 millj. kr. fjárframlagi á þremur árum. Miðað við núverandi efnahagsaðstæður er það ekki hægt og það verður ekki gert, hvorki á næsta ári né þarnæsta, bæði vegna efnahagshrunsins en einnig vegna þess sem kemur fram í nefndaráliti sem hv. þingmaður ritar undir ásamt öðrum í heilbrigðisnefnd, að verkefnið sem Sjúkratryggingar Íslands tóku við núna á miðju sumri, um gerð þjónustusamninga, reyndist meira en áætlað var og það hefur verið erfiðara fyrir stofnunina að annast þá samninga. Þess vegna er hér um einfalda frestunartillögu að ræða af þeim tveimur ástæðum sem ég hef rakið.