138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

sjúkratryggingar.

199. mál
[17:35]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það vakti athygli mína að hv. þingmaður valdi þessari yfirfærslu fjárveitinga um áramótin orð eins og „hrossakaup“ milli ráðherra eða ráðuneyta og að ráðuneytin mundu „bítast“ um fjárveitingar. Ég hlýt að nota tækifærið hér í öðru andsvari til að mótmæla þessu og minna á að yfirfærsla þessara fjárveitinga er liður í heildarstefnumörkun sem er sú að flytja þjónustu við aldraða, þar með talda heimahjúkrun, yfir til sveitarfélaganna og samþætta alla þjónustu við aldraða á þeim vettvangi. Ég vísa til Akureyrar og Hafnar í Hornafirði þar sem þetta hefur tekist með miklum ágætum.

Það mun draga úr búsetu aldraðra á stofnunum á komandi árum og þörfin fyrir þjónustu við aldraða á heimilum þeirra og með skammtímavistunarúrræðum mun aukast. Þess vegna er mikilvægt og þess vegna hef ég og hv. fulltrúar í heilbrigðisnefnd vakið athygli á því að þegar fjárheimildir verða fluttar nú um áramót sé nauðsynlegt að tryggja að áfram verði auknar fjárveitingar til heimahjúkrunar þannig að ekki dragi úr heimaþjónustunni vegna þessa flutnings.

Aðalatriðið er að þessi flutningur fjárveitinga bitni ekki á þeim sem eiga að njóta þjónustunnar. Það skiptir ekki máli í mínum huga hvaðan peningarnir koma, ábyrgðin er klár á gæðum þjónustunnar. Ég er ekki sannfærð um að þetta sé nógu vel undirbúið eins og staðan er og það kann að vera að endurskoða þurfi þessa framkvæmd (Forseti hringir.) og þennan flutning fjármagns en aðalatriðið er að þjónustan skerðist ekki.