138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

eftirlaun til aldraðra.

238. mál
[18:36]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 113/1994, um eftirlaun til aldraðra, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um eftirlaun aldraðra. Ákvæði um eftirlaun til aldraðra voru upphaflega færð í lög árið 1970 til að tryggja að þeir félagsmenn í stéttarfélögum sem aldurs vegna næðu ekki að mynda réttindi í lífeyrissjóðum með greiðslu iðgjalds nytu nokkurra eftirlauna. Sá hópur sem lögin taka til hefur minnkað mikið með árunum og starfsemi umsjónarnefndar eftirlauna hefur að sama skapi dregist mjög saman. Í frumvarpinu er því lagt til að umsjónarnefndin verði felld niður en verkefni hennar falin Tryggingastofnun ríkisins. Þá verða ákvarðanir Tryggingastofnunar samkvæmt lögunum kæranlegar til úrskurðarnefndar almannatrygginga en sá möguleiki var ekki fyrir hendi um úrskurði umsjónarnefndar eftirlauna.

Nefndin hefur fjallað um málið sem ráðgert er að spari ríkissjóði 450 þúsund krónur á ári í þóknunarkostnað umsjónarnefndarinnar. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að lífeyrisþegar sem fá greiðslur samkvæmt lögunum séu um 800 talsins. Nefndin fékk enn fremur þær upplýsingar að í athugasemdunum væri miðað við tölur frá 2007 en tölur frá síðasta ári sýna rúmlega 16% fækkun lífeyrisþega samkvæmt lögunum milli ára. Lífeyrisþegar árið 2008 voru 670. Þá hefur nefndin fengið nýjar upplýsingar sem sýna enn mikla fækkun frá síðasta ári, eða tæplega 40% þar sem 404 lífeyrisþegar fengu greiðslur samkvæmt lögunum í nóvember 2009. Ljóst er því að starfsemi umsjónarnefndarinnar hefur minnkað mikið undanfarin ár. Þá virðist almenn sátt vera meðal aðila um frumvarpið sem leiðir ekki til breytinga á rétti lífeyrisþega.

Nefndin leggur til smávægilega breytingu á frumvarpinu til leiðréttingar á texta laganna sem greint er frá í nefndarálitinu.

Pétur H. Blöndal, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Jón Gunnarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið skrifa Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Guðmundur Steingrímsson, Ólína Þorvarðardóttir, Árni Þór Sigurðsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Ólafur Þór Gunnarsson.