138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

dómstólar.

307. mál
[18:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir orð ræðumanna um mikilvægi þessa máls. Við stöndum auðvitað frammi fyrir því að dómstólarnir hafa á undanförnum mánuðum orðið varir við mjög vaxandi málafjölda og ekki er við öðru að búast en að málafjöldi muni fara vaxandi, bæði vegna rannsókna sakamála og vegna fjölgunar einkamála sem fyrirsjáanleg er vegna bankahrunsins og málum sem því tengjast. Það er mikilvægt að komið sé til móts við aukna fjárþörf þeirra með þessum hætti og það sé í rauninni brugðist við með fjölgun dómara eins og hér er gerð tillaga um.

Fyrr á þessu þingi höfum við fjallað nokkrum sinnum um breytingar fyrirkomulagi dómstólaskipunar í landinu eða skipulagi héraðsdómstóla og ég held að það sé í rauninni, eins og sakir standa, skynsamlegra að fara þá leið sem hér er lögð til en ráðast í þær breytingar. Við getum tekið umræður um þau mál síðar og erum að fjalla um það á vettvangi allsherjarnefndar sem stendur hvernig best er að haga þeim skipulagsbreytingum. En vandinn blasir hins vegar við okkur núna og við honum verður að bregðast. Ég held að dómsmálaráðherra hafi lagt hér fram frumvarp sem felur í sér lausn sem kemur a.m.k. talsvert til móts við þá þörf sem fyrirsjáanleg er.

Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta að þessu sinni en tek undir orð þingmanna sem hér hafa talað um að það er mikilvægt að þetta mál fái hraða meðferð þannig að dómstólarnir verði sem fyrst í stakk búnir til að mæta auknu álagi. Ég tel að málið eigi að geta fengið skjóta og góða meðferð í þinginu.