138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

breyting á heimildarlögum um stóriðju vegna skattgreiðslna 2010, 2011 og 2012 o.fl.

318. mál
[18:53]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir að fara svona vel yfir málið efnislega en ég verð að segja fyrir mína parta að ég hef verulegar áhyggjur af þessu vegna þess að nú er verið að taka lán af skatttekjum framtíðarinnar á árunum 2013–2018. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort henni finnist það ásættanlegt að taka 3,6 milljarða að láni af væntanlegum skatttekjum á árunum 2013–2014, þ.e. eftir fjögur ár. Þá verður hugsanlega komin ný ríkisstjórn. (Gripið fram í.) Það verður a.m.k. komin ný ríkisstjórn, hv. þingmaður, hvort sem það verður þessi sama eða ekki, ég stórefast um að fólkið í landinu geri tvisvar sinnum sömu mistökin.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort öll þessi fyrirtæki geri ekki upp í erlendri mynt. Eins langar mig að spyrja hæstv. ráðherra að því, vegna þess að það er gert upp þegar skattarnir eru lagðar á: Er gert upp miðað við gengi þess dags sem uppgjörið fer fram? Ef svo er, felst þá ekki töluverð gengisáhættu í þessu? Ef krónan styrkist munum við að sjálfsögðu fá minni tekjur. Mig langar jafnframt að spyrja hæstv. ráðherra hvort henni finnist ekki eins og mér að við séum í raun og veru að fresta því að taka á þessu vandamáli, hallarekstri ríkissjóðs, en seilast þarna í tekjur fram í tímann. Hefur hæstv. ráðherra ekki áhyggjur af því að á árunum 2013–2018 sé þegar búið að taka það mikið fyrir fram af tekjunum að það muni hafa skaðleg áhrif gagnvart því að rétta ríkissjóð af?

Það eru sannarlega mörg erfið ár fram undan. Það eru ekki bara næstu eitt eða tvö árin, það eru mörg ár sem við þurfum að hugsa um í þessu sambandi. Hefur hæstv. ráðherra ekki áhyggjur af gengisáhættunni og því að við séum að taka skatttekjur framtíðarinnar að láni til að redda okkur núna án þess að taka efnislega á vandamálunum?