138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

breyting á heimildarlögum um stóriðju vegna skattgreiðslna 2010, 2011 og 2012 o.fl.

318. mál
[19:08]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi umfjöllun hjá hv. þingmanni er með þvílíkum ólíkindum, að hér sé verið að breyta einhverjum forsendum eftir á, við séum að rjúfa eitthvert samkomulag eða brjóta einhverja samninga sem gerðir hafa verið við þessi fyrirtæki. Það er alls ekki svo. Álagningin á raforku og skattlagningin á raforku brýtur ekki þessa samninga vegna þess að í þeim stendur alveg klárlega að ef breytingar á skattlagningu fara fram með almennum hætti þá gangi það upp gagnvart þessum samningum. Það er það sem ríkisstjórnin er búin að gera og niðurstaðan er 12 aurar á hverja selda kílóvattstund á raforku. Það er vegna þess að eingöngu er hægt að setja þetta á með almennum hætti og þá fer skynsöm ríkisstjórn yfir það hvaða áhrif það hefur á hvern og einn hóp. Álverin og þessir stórkaupendur voru bara fljótastir að reikna. Mótmælin voru háværust þaðan og það er líka eðlilegt þegar menn eru jafnstórir kaupendur og raun ber vitni. Það stóð aldrei til, og hv. þingmaður veit það, að setja krónu á hverja selda kílóvattstund eins og hann var að gefa í skyn áðan. (Gripið fram í.) — Gæti hæstv. forseti sett hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur á mælendaskrá, mér heyrist að hún hafi eitthvað að segja. En ég er með orðið.

Virðulegi forseti. Það er einfaldlega þannig að króna á hverja selda kílóvattstund hefði aldrei gengið upp og það vissum við. Þarna var verið að telja upp einhver dæmi sem hægt var að fara í. Fyrirsjáanleiki skiptir öllu máli og þess vegna förum við í það að breyta þessu umhverfi þannig að við séum ekki með einstaka samninga við einstök fyrirtæki.