138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

breyting á heimildarlögum um stóriðju vegna skattgreiðslna 2010, 2011 og 2012 o.fl.

318. mál
[19:10]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að byrja þessa ræðu. Ætli það sé ekki best að byrja hana á því að lýsa því strax yfir að þetta mál er bara fíflagangur og síðan ætla ég að rökstyðja hvernig ég fæ það út.

Um miðjan 10. áratuginn varð þróun í þjóðhagsreikningagerð í heiminum mikil og settir voru upp nýir staðlar hjá Sameinuðu þjóðunum um þjóðhagsreikningagerð, svokallaðir SNA-staðlar. Í kjölfarið tóku ríki smám saman upp uppgjör á hinu opinbera á svokölluðum rekstrargrunni. Að gera upp þjóðríki eða ríkissjóð á rekstrargrunni þýðir að þá eru áfallnar skuldbindingar sem er ráðist í á einhverju tilteknu ári færðar til bókar og þá annaðhvort til hallareksturs eða til tekjuaukningar. Þetta leysti af svokallaðan greiðslugrunn en greiðslugrunnur var einfaldlega þannig að tekjurnar sem komu inn á því ári og útgjöldin sem fóru út á því ári mynduðu grunninn að halla eða afgangi á ríkissjóði.

Ísland var eitt af fyrstu ríkjunum til að ráðast í að framkvæma þjóðhagsreikningagerð og ríkissjóðsreikninga á rekstrargrunni. Það þótti mikil framför vegna þess að þá var ekki lengur hægt að fela útgjöld eða tekjur, færa til í tíma með því einfaldlega að færa yfir áramót eða annað slíkt. Það sem er verið að gera hérna er, með orðum hæstv. iðnaðarráðherra, hókus-pókus. Það er verið að hverfa aftur í þessa gömlu aðferð þar sem útgjöld voru falin, tekjur voru faldar til að pólitíkusar gætu látið rekstur ríkissjóðs líta betur út.

Þannig er mál með vexti að skattgreiðslur ríkissjóðs á árunum 2013–2014 verða ekki taldar sem skatttekjur á því ári samkvæmt greiðslugrunni en samkvæmt rekstrargrunni er það svo og samkvæmt rekstrargrunni er einfaldlega verið að færa til tekjur. Það er grundvallarmisskilningur hjá hæstv. iðnaðarráðherra að þetta sé sambærilegt við séreignarsparnaðinn. Sú skattkerfisbreyting bókast sem tekjur á því ári sem skattkerfisbreytingin er gerð þannig að eitthvað vantar upp á bókhaldskunnáttuna þar. En það sem þetta gerir er að halli ríkissjóðs breytist ekki neitt, halli ríkissjóðs eða afgangur á ríkissjóði er nákvæmlega sá sami fyrir og eftir þessa aðgerð. Ef hallinn er 100 milljarðar á næsta ári og 3,6 milljarðar eru færðir til í tekjum frá 2013–2014 er hallinn áfram 100 milljarðar. En það sem gerist er aftur á móti það að peningaflæðið er annað, það eru til 3,6 milljörðum meiri peningar í ríkissjóði til að standa undir útgjöldum.

Það vandamál sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir í dag er ekki það að krónur vanti til að fjármagna hlutina. Það er nóg af krónum til í Seðlabankanum, ríkissjóður á meira að segja reikninga í Seðlabankanum þar sem eru mun hærri fjárhæðir en þessir 3,6 milljarðar. Vandamálið er ekki krónur. Vandamálið er það að gjaldeyri vantar inn í landið, gjaldeyri sem við höfum unnið fyrir og jafnframt gjaldeyrislán sem að vísu verður leyst að einhverju leyti með lánum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. En hvað um það. Það að færa skatttekjur áranna 2013 og 2014 til næsta árs er nákvæmlega sama aðgerð og taka lán t.d. hjá íslenskum banka, 3,6 milljarða, nota það í rekstur ríkisins og greiða það til baka á árunum 2013–2014. Af hverju segi ég það? Það er nákvæmlega sama aðgerð vegna þess að við getum tekið lánið í íslenskum banka, notað skatttekjurnar sem við fáum 2013 og 2014 til að borga til baka þetta lán. Þetta er því ekkert annað en hókus-pókus aðgerð og þetta er eitt lélegasta töfrabragð sem ég hef séð lengi.

Það er fremur þunnur þrettándi að bera því fyrir sig að verið sé að dreifa þunnt yfir samfélagið þannig að enginn verði fyrir miklum búsifjum af skattahækkunum. Ég held aftur á móti að þetta sé raunsönn lýsing á aðgerðum ríkisstjórnarinnar í þessu efnahagsástandi og sérstaklega ef horft er til fjárlagafrumvarpsins. Það er dreift ansi þunnt og því miður munum við súpa seyðið af því í framtíðinni. Það er ekki tekið á málunum af festu og röggsemi, það er krafsað í, örlítið, nokkrum steinum velt við, einhverjum skattahækkunum og kerfisbreytingum á sköttum skellt á og við erum engu bættari. Þetta hókus-pókus sem ríkisstjórnin er að reyna að gera með fjárlögunum og með tekjuhliðina á fjárlögum eru svo viðvaningslegar aðgerðir að hvert barn sér í gegnum það. Spunameistarar ríkisstjórnarinnar ná ekki að hylma yfir það með fagurgala eins og sýnt hefur verið fram á nú á síðustu dögum en þetta toppar allt. Það er aumur brandari að færa tekjur ársins 2013 og 2014 til næsta árs og segja að það séu auknar skatttekjur.

Hæstv. forseti. Ég er ekkert sérstaklega hrifinn af þessari aðgerð og finnst þetta með því aumara sem ég hef séð. Ef einhverjir hæstv. ráðherrar trúa því að þetta sé einhver lausn á þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir á næsta ári í sambandi við ríkisfjármálin þá stöndum við ekki einungis frammi fyrir vandamálum með ríkisfjármálin heldur erum við líka með fólk sem ræður ekki við hlutverkið vegna þess að það skilur ekki hvað er í gangi. Ég tel að hv. þingheimur ætti að vísa þessu máli frá sem lélegu gríni eða mistökum. Þetta hefur ekkert með það að gera að leysa fjárhagsvandamál íslenska ríkisins á næsta ári, ekki neitt.

Það getur vel verið að einhver hafi sagt hæstv. ráðherrum að þetta mundi minnka hallann á næsta ári en ég skal fara með þeim hinum sömu ráðherrum í gegnum reglur um bókun á skatttekjum og útgjöldum sem gefnar eru út af Sameinuðu þjóðunum, SNA, sem sem við förum eftir á Íslandi og fletta þessu einfaldlega upp fyrir þá. Það er ekki flóknara. En það er fyrir neðan allar hellur að bjóða þjóðinni, í þeim vandræðum sem þjóðin er í núna, upp á svona hókus-pókus. Það sýnir það náttúrlega að það fólk sem stýrir landinu ræður engan veginn við hlutverk sitt.

Ég gæti svo sem lengt þetta mál mitt og haft fleiri orð um það hvað mér finnst það bjánaleg hugmynd að gera þetta. En ég held að ég sé búinn að koma skilaboðunum nægilega vel inn í Alþingistíðindi. Þeir fáu þingmenn sem hlusta á mig, sem eru aðallega sjálfstæðismenn og framsóknarmenn, eru alveg búnir að ná skilaboðunum. Ég veit að ég þarf ekki að halda þessa ræðu til að sannfæra þá. Því miður eru þeir sem þarf að sannfæra fjarstaddir eins og svo oft áður þegar stjórnarandstæðingar halda ræðu. En ég læt hér staðar numið.