138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[20:03]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við höfum unnið að fjáraukalögum fyrir árið 2009 í fjárlaganefnd og það sem upp úr stendur eftir þá vinnu er sú staðreynd að mínu mati að fjárlaganefnd er ekki nægilega vel upplýst um meginstærðir í því fjáraukalagafrumvarpi sem liggur hér fyrir til afgreiðslu. Ég hef vakið máls á því við umræðu, bæði við 2. umr. og 3. umr., hvernig háttar til og hvernig aðstæður nefndarinnar hafa verið til að vinna að málinu á síðari stigum og því eru ítarlega gerð skil í nefndarálitum minni hlutans hvoru tveggja, við 2. umr. og ekki síður við þá umræðu sem fram fór í dag.

Í ljósi þess hversu óvissan er mikil vísum við ábyrgðinni af afgreiðslu frumvarpsins alfarið á hendur stjórnarflokkunum og munum sitja hjá við afgreiðslu þessa máls.