138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

breyting á heimildarlögum um stóriðju vegna skattgreiðslna 2010, 2011 og 2012 o.fl.

318. mál
[20:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Ég get að nokkru tekið undir ræðu hv. þm. Birgis Ármannssonar áðan varðandi þetta frumvarp um tímabundna breytingu á heimildarlögum um stóriðju vegna skattgreiðslna á árunum 2010, 2011 og 2012. Hv. þingmaður velti því fyrir sér hvort þetta frumvarp væri einhvers konar furðuverk. Það má eflaust líkja því við furðuverk en það koma líka ýmsar aðrar vangaveltur upp í hugann þegar horft er á frumvarpið og aðdraganda þess, því að eins og hv. þingmaður benti á í ræðu sinni var gert ráð fyrir orkusköttum í fjárlagafrumvarpinu og hvort sem ráðherra vissi af því eða ekki eða hvernig sem aðdragandinn var, var þetta í því frumvarpi sem dreift var hér og var til umfjöllunar.

Sem betur fer var hætt við það. Af hverju var hætt við það? Var það vegna andstöðu þeirra sem áttu að greiða þessa orkuskatta? Gleymum því ekki að það voru miklu fleiri en þeir sem taldir eru upp í frumvarpinu, þ.e. það voru fleiri aðilar en akkúrat stóriðjufyrirtækin sem þeir skattar hefðu lent á .

Hvað er verið að gera með þessu frumvarpi? Er verið að réttlæta það að búið er að bakka með orkuskattana? Var fyrirtækjunum einhvern veginn stillt upp til að hugmyndafræðin sem strandaði í frumvarpinu, hugmyndafræðin sem skein í gegn í því skjali sem dreift fyrr í haust lenti uppi á skeri og var ljóst að átti ekki hljómgrunn og var þá í raun hafnað? Var fyrirtækjunum stillt upp eða eru fyrirtækin að sýna ákveðna ábyrgð eða velvilja með því að taka þátt í að flýta skattgreiðslum til að flýta fyrir bata í efnahagslífinu? Þetta er tvíbent, frú forseti, því að þessir sömu skattar munu ekki skila sér til okkar á árunum 2013–2018 sem þeir hefðu annars gert.

Það má líka velta því fyrir sér, í ljósi þeirra tillagna sem stjórnarandstaðan hefur lagt fram, t.d. varðandi séreignarsparnað og eins varðandi aukinn þorskkvóta, að þeim tillögum hefur hingað til verið tekið frekar fálega og m.a. sagt að megi ekki taka af því sem nota á í framtíðinni, en hér er verið að gera nákvæmlega sömu hluti, frú forseti.

Hugmyndafræðin, sem ég vil meina að hafi lent uppi á skeri og strandað, um orkuskatta í því formi sem kom fram í frumvarpinu, skapaði vissulega mikla óvissu meðal fjárfesta og meðal þeirra sem vilja starfa hér á landi. Hefur óvissunni verið eytt? Nei, óvissunni hefur ekki verið eytt, hún er til staðar vegna þess að það má leggja þetta frumvarp út með þeim hætti að hér hafi ákveðin fyrirtæki í raun verið þvinguð til að breyta þeim samningum sem giltu og til að taka á sig ákveðnar byrðar. Ég veit að þetta er gert í þokkalegri sátt við fyrirtækin enda er í rauninni verið að flýta skattgreiðslum, ekki verið að leggja á aukna skatta.

Það virðist vera hálfgerð lenska hjá núverandi ríkisstjórn að senda reikningana inn í framtíðina. Hér er verið að taka af skatta sem er ljóst að mundu skila sér. Hér er verið að leggja á þjóðina til framtíðar og verði þetta blessaða Icesave-mál samþykkt í þinginu mun það líka taka af skatttekjum framtíðarinnar, þannig að hin svokallaða velferðarstjórn sem hér slær sér á brjóst er að koma flestum vandamálunum frá sér á framtíðina í staðinn fyrir að axla ábyrgðina sjálf.

Í II. kafla, 2. gr. er orðalag, frú forseti, sem ég velti aðeins fyrir mér en má átta sig á með því að lesa skýringarnar. Hér stendur:

„Af ástæðum er varða útreikning …“

Síðan er í athugasemdum við 2. gr. aðeins fjallað nánar um þetta, en þetta er orðalag sem ég held að veki fleiri spurningar en svör og því er ástæða til að hvetja til þess að þetta verði skoðað til að mönnum sé ljóst um hvað verið er að fjalla þarna.

Frú forseti. Í sjálfu sér er ekki ástæða til að hafa mjög langt mál um þetta. Ljóst er að þetta er hluti af mjög miklum vandræðum eða vandræðaför sem stjórnarflokkarnir hófu sjálfir þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram. Hér er verið að reyna að klóra í bakkann með þetta klúður og segja má að þessi fyrirtæki og atvinnulífið hafi tekið þátt í að bjarga því sem bjargað varð fyrir ríkisstjórnina hvað þetta varðar og sjálfsagt verður þeim þakkað það.

Í umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið stendur, með leyfi forseta:

„Skatttekjur ríkissjóðs af þessum tilteknu fyrirtækjum eru þó tímabundnar samkvæmt frumvarpinu og munu því lækka sem þessum tekjuauka nemur árin 2013–2018.“

Þetta er í raun undirstrikun á því sem ég sagði áðan að þarna er verið að taka skatttekjur af framtíðinni. Vera má að hægt sé að færa rök fyrir því að það sé eðlilegt í ljósi ástandsins en aðdragandinn að því er með öllu óeðlilegur og undarlegur.

Frú forseti. Þetta er dæmi um vinnubrögð sem eru í raun allt of lýsandi fyrir þá ríkisstjórn sem starfar núna.