138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

breyting á heimildarlögum um stóriðju vegna skattgreiðslna 2010, 2011 og 2012 o.fl.

318. mál
[20:45]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þess að hv. þingmaður ítrekaði að menn hefðu verið undir einhvers konar þvingunum og að hér hefði verið sagt fyrr í umræðunni að það hefði verið undir hótunum um frekari skattahækkanir sem þetta samkomulag var gert, finnst mér rétt að upplýsa hv. þingmann og þingheim um að þessir aðilar eru allir með fjárfestingarsamninga sem tryggja þá gagnvart sértækum sköttum. Þetta á hv. þingmaður að vita og ekki halda fram svona vitleysu eins og hann gerði í ræðu sinni. Ef fara á í einhverjar skattahækkanir á þessi fyrirtæki umfram það sem almennt gerist er það ekki heimilt út frá þessum fjárfestingarsamningum. Því eru allar skattahækkanir sem gerðar eru á þessi fyrirtæki samhljóða þeim skattahækkunum sem eiga sér stað á önnur fyrirtæki í landinu. Þau eru reyndar algerlega varin gagnvart því að fara hærra en 15% í tekjuskatti, t.d. Fjarðaál. Hinu opinbera er ekki heimilt að skattleggja þessi fyrirtæki meira en um 15%. Varðandi raforkuskattinn er það alveg kristaltært að samkvæmt fjárfestingarsamningi var ríkisvaldinu aldrei heimilt að fara í einhverja sértæka skattlagningu á þessa aðila og þess vegna hlaut að þurfa að skoða áhrif þeirrar nýju skattlagningar á allan atvinnuveg í landinu. Því er það algerlega ljóst að ekki hefði verið gerlegt að fara mikið ofar en gert er í raforkuskattinum eins og hann liggur fyrir. Þess vegna er beinlínis rangt sem menn halda fram, að það samkomulag hafi verið gert undir einhverjum þrýstingi. Það var gert út frá þeim forsendum sem ég lýsi hér. Horft var til hagsmuna alls atvinnulífsins í landinu vegna þess að það var allt undir þegar þessi ákvörðun var tekin og niðurstaða fengin.