138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

breyting á heimildarlögum um stóriðju vegna skattgreiðslna 2010, 2011 og 2012 o.fl.

318. mál
[20:48]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stórfyrirtæki á Íslandi hljóta að sjá sér hag í því að íslenskt efnahagslíf nái bata sem allra fyrst. Það hlýtur að vera hagur hvers einasta fyrirtækis í landinu alveg eins og það er hagur hvers einasta heimilis í landinu. Þeirri endalausu bábilju um að hér hafi menn ætlað að leggja krónu á hverja selda kílóvattstund er löngu búið að svara. Þetta er ein setning í langri greinargerð í frumvarpi til fjárlaga þar sem það er nefnt sem dæmi til að sýna stærðirnar í þessu sambandi. Þetta hefði auðvitað aldrei verið gerlegt vegna þess að hvorki heimili né garðyrkjubændur eða aðrir í landinu hefðu þolað eina krónu frekar en stóriðjan.

Bara til að sýna stærðirnar í þessu sambandi, af því að hér er verið að tala um 1,2 milljarða á ári, þ.e. frá næsta ári og 2011 og 2012, greiddu þessi fyrirtæki á árinu 2007 samanlagt 2,8 milljarða í tekjuskatta. Þar var Alcan langstærsti aðilinn. Ástæðan var sú að hin fyrirtækin eru í fjárfestingum og uppbyggingu og greiddu ekki tekjuskatt. Menn sjá því að þessi hlutur, 1,2 milljarðar, fer síminnkandi sem hlutfall af heildargreiðslum þessara fyrirtækja eftir því sem frá líður og þau fara að greiða tekjuskatt eitt af öðru, enda uppbyggingarfasa margra þeirra að ljúka.