138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

breyting á heimildarlögum um stóriðju vegna skattgreiðslna 2010, 2011 og 2012 o.fl.

318. mál
[20:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að álfyrirtækin eins og önnur fyrirtæki og heimilin í landinu hafa mikinn hag af því að atvinnulífið blómstri og hér gangi vel. Við eigum þá væntanlega von á því að hæstv. ríkisstjórn geri samninga við bifreiðaeigendur og tekjuskattsgreiðendur, sérstaklega útgerðarfyrirtækin og ferðamannaþjónustuna um að þau greiði fyrirframskatta til að halda uppi atvinnu og bæta stöðu íslensks atvinnulífs fyrst gæskan er svona mikil.

Ég verð að segja að á sama tíma og ríkisstjórnin gerir þetta og þiggur gjafir frá þessum erlendu fyrirtækjum til að styðja íslenskt atvinnulíf í erfiðleikum, er leggur hún gífurlegar álögur á innlent atvinnulíf og keyrir það í kaf. Ég held að menn ættu kannski að líta á heildarniðurstöðuna. En undarlegt er þetta kannski engu að síður, frú forseti, þetta er mjög undarlegt samkomulag og mjög undarleg lagasetning. Ég hygg að hún sé algert einsdæmi.