138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[21:12]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir þessi svör. Ég tek undir það, ég held að ég fari rétt með, að umframorka sé á Suðurnesjum í dag sem væri gott að geta selt út af svæðinu ef til væru línur. Eins verður væntanlega nauðsynlegt að hafa línur til þess að geta fullnægt þörfum slíks orkuvers. Það hlýtur að vera mjög mikilvægt að geta fengið rafmagn úr tveimur mismunandi áttum til þess að tryggja raforkuöryggi í slíku gagnaveri.

Það gefst kannski ekki tími til að fara út í langar fyrirspurnir en ráðherra nefndi þann kostnað sem ívilnunum fylgir og er hann greinilega frekar lágur. Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann væri með í höfðinu einhverjar áætlanir yfir þetta 20 ára tímabil um beinar tekjur og eins þá hugsanlega óbeinar, hvort menn hafi gert áætlanir um hvaða tekjur kæmu af starfsemi af þessu tagi ef hún yrði eins og stærst yrði, þ.e. um 100 föst störf eftir 2016, hvort menn hefðu gert sér (Forseti hringir.) í hugarlund stærðargráðuna af þeim tekjum sem kæmu til samfélagsins, ríkisins annars vegar og sveitarfélaga hins vegar.