138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[21:26]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum þá augljóslega ósammála um þetta. Ég lít svo á að við eigum að vera samkeppnishæf við ríkin í kringum okkur um nýfjárfestingar. Í þeim heimi sem við lifum núna eru fyrirtæki einfaldlega orðin alþjóðleg, þau eru orðin hreyfanleg og þau setja sig niður þar sem best er að vera og þá í samhengi við skattalegt tillit, landfræðilega legu ríkjanna og annað umhverfi, pólitískan stöðugleika, stöðugleika almennt í því ríki sem er að setja sig niður í.

Ég lít svo á, virðulegi forseti, að við Íslendingar eigum að vera á pari við Svía, á pari við Finna og reyna að keppa við Kanadamenn sem eru hvað fremstir á því sviði að fá til sín hátæknifyrirtæki til að byggja upp fjölbreytt störf. Við eigum að keppa við þessi lönd um hátæknistörf, um fjölbreytt störf og fjölbreytta atvinnustarfsemi. Hv. þingmaður er greinilega ekki sammála mér og þá er það nýtt fyrir mér miðað við hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur talað á undanförnum mánuðum, verið að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir seinagang í þessum efnum.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að það kemur mér á óvart að talsmaður (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu skuli lýsa sig andsnúinn því að við séum samkeppnishæf við ríkin í kringum okkur um nýfjárfestingar hér á landi.