138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[22:04]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held bara áfram að vera sammála hæstv. ráðherra. Þetta er með því betra sem hann hefur verið að tala um hér alla vega um langa hríð. Öll þau verkefni sem við höfum verið að ræða hér, sem eru í deiglunni, eru gott dæmi um þetta „eitthvað annað“ sem alltaf er verið að tala um. Ég veit að hæstv. umhverfisráðherra fór í heimsókn suður með sjó fyrir ekki svo löngu og hún varð mjög hrifin af því sem hún sá. Ég held að það hafi opnað augu hennar fyrir því að þarna eru á ferðinni mörg mjög spennandi verkefni sem allir geta fallist á að eru dæmi um þetta „eitthvað annað“.

Ég vona svo sannarlega að spádómur hæstv. ráðherra, um að Suðurnesin verði eitt mesta vaxtarsvæði landsins, rætist. Ég tek undir þann spádóm vegna þess að tækifærin eru óendanlega mörg. Til þess að geta nýtt öll þessi tækifæri verðum við líka að fá að nýta orkuna sem býr þar, og hæstv. ráðherra talaði um. Við verðum að fá hana inn á svæðið og til þess þarf línur. Þannig að ég ítreka hvatningu mína til þeirra sem sitja við ríkisstjórnarborðið að hafa áhrif á þá sem taka ákvarðanir um þær ágætu línur sem við erum alltaf að tala um hér, að ryðja þeim hindrunum úr vegi sem gætu tafið þessa miklu uppbyggingu og það að Suðurnesin verði það vaxtarsvæði sem hæstv. ráðherra óskar, og ég deili þeirri ósk með honum.