138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[22:08]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var ánægð með að hæstv. ráðherra fagnaði því að við værum nokkuð sammála en svo gerði hún mikið úr því að við værum mjög ósammála hér í lokin. Ég vil leiðrétta það vegna þess að ég held að við séum alveg sammála. Ég vil hafa kerfið þannig að það sé almennt mjög gott og ef við ætlum að bjóða upp á ívilnanir ættu þær ekkert endilega að vera bara fyrir erlend fyrirtæki. Ef við viljum leggja eitthvað á okkur, bjóða upp á eitthvað sérstakt sem hentar einhverjum sérstökum atvinnugreinum — ég mundi reyndar vilja gera það almennt, og ítreka það, þannig að við séum ekki að beita fyrirtæki misrétti.

En mér finnst, og ég held að það sé það sem hv. þm. Pétur Blöndal var að tala um hér áðan, ósanngjarnt að íslensk fyrirtæki — kannski í sama geira og þau fyrirtæki sem við erum að reyna að laða hingað til lands þegar við erum að reyna að byggja upp einhverja ákveðna atvinnustarfsemi — fyrirtæki sem eru með íslenskt eignarhald eigi ekki kost á þessum ívilnunum. Það er það sem mér finnst skakkt við þessa mynd. Ég vil þess vegna stíga skrefið þannig að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja almennt hér á landi þannig að við höfum öll tækifæri, sama í hvaða geira við erum, sama frá hvaða landi við erum, til að keppa hér og Ísland sé samkeppnisfært þannig. Á þeirri leið vorum við þar til ekki alls fyrir löngu, (Heilbrrh.: Og til hvers leiddi það?) vegna þess að við vorum að leggja — nú hvet ég hæstv. heilbrigðisráðherra til að fara á mælendaskrá og gera eins og ég gerði hér áðan, varð við ósk hæstv. iðnaðarráðherra. Hæstv. heilbrigðisráðherra kallar hér fram í: Og til hvers leiddi það? Ég get fullvissað hæstv. heilbrigðisráðherra um það að (Forseti hringir.) bankakerfið hrundi ekki vegna of lágra tekjuskatta. (Forseti hringir.) Ég kem að öðrum ívilnunum í seinna andsvari mínu.