138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

lyfjalög.

321. mál
[22:35]
Horfa

Frsm. heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 97/2008, um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum, sem hæstv. heilbrigðisnefnd flytur. Þetta er stutt frumvarp, það hljóðar svo:

„Síðari málsliður 13. gr. laganna, sbr. lög nr. 28/2009, orðast svo: Þó skal ákvæði 10. gr., hvað varðar smásöluaðila, taka gildi 1. janúar 2012.“

Þessi lög öðlast þegar gildi.

Með frumvarpinu er lagt til að enn verði frestað hluta gildistöku 10. gr. laga nr. 97/2008, um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994. Frestunin varðar eingöngu smásölu lyfja. Gildistökunni hefur í þrígang verið frestað, fyrst með lögum nr. 120/2008, um breytingu á lögum nr. 97/2008, um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum, og þá til 1. janúar 2009. Með lögum nr. 146/2008 var gildistöku ákvæðisins að nýju frestað til 1. apríl 2009 og aftur með lögum nr. 28/2009 til 1. janúar 2010.

Hæstv. forseti. Það er eðlilegt að spurt sé hvers vegna í ósköpunum sé verið að fresta því enn og aftur að heimila bann við afslætti í smásölu. Í lyfjalögum er ákvæði um að afnema eigi allan afslátt en hér er í fjórða sinn verið að fresta því að banna afslátt í smásölu.

Til að gera langa sögu stutta þá flutti hæstv. ráðherra frumvarp þess efnis að afnema þetta ákvæði alfarið, að það væri hreinlega gengið út frá því að veita megi afslátt í smásölu á lyfjum, en þegar frumvarpið var sent út til umsagnar, bæði til sjúklingahópa og fleiri aðila, var ljóst að allir báru þá von í brjósti að hér yrði komið á einhverju því kerfi sem gerði afgreiðslu lyfja frá framleiðanda til neytenda, þ.e. heildsölu og smásölu, gegnsærri, einfaldari og réttlátari en er í dag. Það var nokkur órói í brjósti þeirra sem komu fyrir nefndina, og kom fram í nokkrum umsögnum, um að túlka mætti þetta á þann veg að hreinlega væri verið að hætta við að koma á öðru kerfi. En það hefur ekki verið hugsunin, hvorki nefndarinnar né stjórnvalda, að falla frá því að finna einfaldara og gegnsærra kerfi fyrir afgreiðslu lyfja. Með því að fresta þessu ákvæði eingöngu leggur heilbrigðisnefnd til að það verði gert í tvö ár þannig að hæstv. heilbrigðisráðherra gefist tími til að vinna að þessu og hafi til þess tíma og geti vandað vel til og af þeim sökum flytur nefndin þetta frumvarp.

Ég held, hæstv. forseti, að í sjálfu sér þurfi ekki að hafa neitt frekari orð um frumvarpið. Við berum öll þá von í brjósti að sú mikla vinna sem var lögð í það að af þeirri nefnd sem vann að því að koma á einfaldara kerfi — lagði mikla vinnu í grunnupplýsingar og gagnavinnslu sem nýtist til áframhaldandi vinnslu. Við hvetjum til þess að það verði gert þannig að sú mikla vinna og þau gögn sem fyrir liggja geti nýst til þessara verka.

Hæstv. forseti. Ég legg til fyrir hönd heilbrigðisnefndar að frumvarpinu verði vísað beint til 2. umr. Nefndin var búin að fjalla um frumvarp ráðherra og ríkisstjórnar sem var alveg sama efnis þó að frumvarpið sem hér liggur fyrir komi fram í öðrum búningi. Nefndin telur því að málið sé útrætt fyrir 2. umr.