138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

lyfjalög.

321. mál
[22:54]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég sit í heilbrigðisnefnd og er því meðflutningsmaður þeirrar tillögu sem hér er til umræðu. Því er ekki að leyna að ég hefði kosið að heimild til afslátta væri afnumin en henni ekki frestað, en taldi hins vegar rétt að rjúfa ekki einingu heilbrigðisnefndar í málinu, kannski sérstaklega til að leggja áherslu á það að endurskoða greiðslutilhögun eða endurgreiðslur á lyfjum og gera það kerfi gagnsærra og réttlátara heldur en það er í dag og kannski nútímalegra, ef þannig má orða það. Ég er tilbúin til að vera með á frumvarpinu ef það er til að undirstrika það að endurskoða þurfi kerfið.

Ég veit hins vegar ekki hvað nákvæmlega kom frá þeirri nefnd sem hv. þm. Pétur H. Blöndal og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir stóðu fyrir. Ég þyrfti að sjá það áður en ég get sagt að ég mæli með því kerfi. Ég er hins vegar á því að skoða þurfi alla verðlagningu lyfja. Ég veit að mikill árangur hefur náðst í því að lækka hér lyfjaverð. Lyfjaverðið er samt sem áður enn þá hærra hér heldur en hjá nágrannaþjóðunum og ég tel að sú aðferð sem virkar best í því að lækka verð sé aukin samkeppni.

Lyf eru vara, en um þau gilda sérstök ákvæði vegna þess að þau eru hættuleg vara. Mín skoðun er að þær reglur sem hafa gilt og gilda hér á landi um þessa vöru séu oft og tíðum framkvæmdar þannig að þær stuðli að minni samkeppni en verið gæti. Það er gegn þessu sem ég tel að við þurfum að ráðast fyrst og fremst, vegna þess að þó að hin villta markaðshyggja hafi sett þetta þjóðfélag á hausinn hefur það ekki breyst að samkeppni er besta leiðin til að lækka verð.

Hér er ekki samkeppni í lyfjaverði. Hér er hægt að innleiða meiri samkeppni með lyf með því að framkvæma þá öryggisreglu sem gildir um lyf öðruvísi en gert er í dag. Ég tel að við þurfum að stefna að því og auðvitað þarf kerfið að vera gagnsætt.

Ég er meðflutningsmaður á frumvarpinu og er til í að fresta framkvæmdinni í tvö ár, en hefði helst viljað afnema afslætti, vegna þess að ég tel það eiga að vera rétt þeirra sem standa í verslun og viðskiptum að gefa afslátt ef þeir svo kjósa. Auðvitað á ekki gefa konu einhverja prósentu í afslátt og karli aðra, ég er alveg sammála því. Það breytir hins vegar ekki því að við eigum að afnema frelsi þeirra sem standa í viðskiptum til að gefa afslætti. Við eigum að ráðast að því að menn geri það rétt og sanngjarnt.