138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

lyfjalög.

321. mál
[23:00]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Það er alveg hárrétt að reglurnar í kringum lyf eru flóknar og eins og ég segi hafa þær verið notaðar til að loka mörkuðum. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmanni sé fullkunnugt um Evrópuskráningu á lyfjum þar sem lyf eru skráð í eitt skipti inn á Evrópska efnahagssvæðið. Hér á landi er þessi skráning hins vegar tekin þannig, eða var það a.m.k. síðast þegar ég vissi og það var á meðan og eftir að hv. þingmaður hætti að vera ráðherra, að það þurfti sérstaka skráningu hér landi. Ég tel að hún sé þröng, ekki ólögleg, en þröng túlkun á Evrópureglugerðinni.

Ég tel að mjög mikið svigrúm til að breyta hér verslun með lyf. Ég veit líka og þekki vel til þeirra tilrauna og aðgerða sem hv. þingmaður gerði í ráðherratíð sinni um að fá skráningu með öðrum löndum. Ég tel að það megi ganga lengra þar. Ég tel að við gætum hugsanlega sett alla skráningu út úr landinu. Lúxemborg var með þrjár manneskjur síðast þegar ég vissi, þær eru kannski orðnar sex núna, í lyfjastofnun vegna þess að Belgía skráir allt fyrir þau. Þetta getum við gert ef vilji er til.