138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

lyfjalög.

321. mál
[23:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel það svolitla bjartsýni að ætla það að við höfum túlkað þetta eitthvað sérstaklega þröngt, í það minnsta var það ekki gert í minni tíð. Þvert á móti var farið út á ystu nöf og margir töldu að ég hefði gengið of langt. Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, sem er mikill Evrópusambandssinni, hristir höfuðið. Það er athyglisvert að heyra þetta vegna þess að þegar ég hitti framkvæmdastjóra Evrópusambandsins og við töluðum um þetta viðurkenndu þeir vandamálið. Þeir sögðu: Við áttuðum okkur í rauninni ekki á því hvað við vorum að gera og við erum í miklum vanda með litlu markaðina.

Malta er bæði með ensku og síðan maltnesku þannig að þeir taka allt beint frá Bretlandi. Kýpverjar hafa líka tekið beint frá Bretlandi og er það á mjög gráu svæði. Það er mjög erfitt að fá upplýsingar um það og þeir vilja ekki alveg kannast við það. Menn vita það hins vegar ef þeir fara í apótek á Kýpur. Lúxemborg er með nokkur tungumál þannig að þetta getur sloppið hjá þeim.

Það sem ég gerði var að breyta reglugerðinni þannig að það væri heimilt að flytja inn lyf og prenta fylgiseðilinn úr prentara á staðnum í staðinn fyrir að þurfa að setja hann inn í pakkninguna. Vandinn er að maður þarf að setja séríslenska pakkningu þó að maður sé með Evrópuskráninguna og það er svo lítið sem við flytjum inn að ef sú túlkun er stíf er erfitt að fá aðila til að flytja inn lyf. Menn eru ekki tilbúnir til þess að vera með séríslenska pakkningu fyrir nokkuð hundruð pakkningar á ári eða kannski þúsundir þegar þessi færibönd framleiða fyrir milljónir.

Evrópusambandið viðurkennir að þetta sé mikill vandi hjá þeim varðandi litlu markaðina þannig að mér finnst eiginlega að íslenskir Evrópusambandssinnar eigi að gangast við því, en mikil er trúin.