138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

lyfjalög.

321. mál
[23:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður getur ekki komist hjá því, ég tala nú ekki um ef hv. þingmaður kemur og segist vera að kenna hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins hitt og þetta. Þá er bara töluð íslenska við hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur. Það er bara þannig. Hv. þingmaður kom hingað upp og sagði að þetta væri ekkert mál. Hún notaði ekki þau orð en svo sannarlega mátti skilja hana þannig að það væri ekkert mál að vinna innan evrópska reglugerðakerfisins. Ég benti á að framkvæmdastjórar Evrópusambandsins sögðu: Jú, við erum með mikinn vanda. Í einum þættinum var niðurstaðan sú að við fórum inn í vinnuhóp sem var settur á til að taka sérstaklega á vanda lítilla markaðssvæða í lyfjunum, ekki bara Íslands.

Varðandi fylgiseðlana er það þannig að aðilum sem hafa áhuga á að flytja inn lyf hefur reynst það mjög erfitt. Helstu hindrunina töldu þeir vera fylgiseðlamálið og markaðslög, það er í rauninni þetta tvennt. Það þarf að komast fram hjá þessu eða víkka þetta ef menn ætla að fá alvörusamkeppni því að það virðist vera, virðulegi forseti, að þessum markaði í álfunni og væntanlega um allan heim sé nokkuð vel stýrt. Það er ekki rökrétt þegar menn sjá sömu lyfin frá sama framleiðanda á mjög misjöfnu verði í Evrópu. Við þekkjum það öll og ég tala nú ekki um hvernig sum samheitalyf hafa ekki getað komist inn á markaði eins og litla markaðinn hjá okkur.

Ég held að það sé engin ástæða fyrir okkur sem erum sammála í flestu hvað þetta varðar, hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir og ég, að vera að kýta um þetta. Aðalatriðið er að finna lausn á þessu. Ég er afskaplega ánægður með þann árangur sem (Forseti hringir.) ég náði. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður veit um einhvern annan ráðherra sem gerði betur í þessu.