138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrirspurnina. Ég get svarað því neitandi að það stendur ekki til að Vinstri hreyfingin – grænt framboð eða sú ríkisstjórn sem nú er starfandi afhendi vinum og kunningjum eignir ríkisins eins og gert hefur verið mörg undanfarin ár og áratugi. Því tímabili í sögu þjóðarinnar er vonandi lokið og kemur ekki aftur.

Hins vegar er það rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að í morgun var rætt á fundi fjárlaganefndar álitaefni sem uppi er á milli Ríkisendurskoðunar annars vegar og hins vegar fjármálaráðuneytisins um ráðstöfun á þeim bönkum sem féllu fyrir ári síðan. Hv. þingmanni á að vera kunnugt um hvernig þeim málum öllum var háttað. Að mati Ríkisendurskoðunar vantar 6. gr. heimildarákvæði til að ráðstafa þessum eignum eins og hefur verið gert og er verið að gera. Fjármálaráðuneytið hefur hins vegar bent á að heimild til að fjármagna bankana var ekki heimild til að kaupa þá í sjálfu sér heldur til að halda þeim á floti, þoka þeim áfram, halda í þeim lífinu til að koma þeim í starfshæft horf. Í raun og veru hafi ríkið ekki að selt sínar eigur heldur kröfuhafar leyst til sín eigur sínar með því að taka bankana til sín. Þetta hafi því ekki verið eiginleg ráðstöfun ríkiseigna eða sala ríkiseigna eins og hingað til hefur verið túlkað.

Fulltrúar fjármálaráðuneytis og Ríkisendurskoðun hafa verið boðaðir á fund fjárlaganefndar strax í fyrramálið til að fara yfir þetta mál og ræða þann ágreining eða álitamun sem þarna er uppi og útskýra þau mál hver frá sínu sjónarhorni.