138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að ræða álitaefni sem kom upp á fundi fjárlaganefndar í morgun varðandi einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar á bönkunum og hvort þau hafi gengið gegn lögum.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson, fyrrv. heilbrigðisráðherra, kom upp í ræðupúlt um daginn og sagði að vinnubrögð ríkisstjórnarinnar væru jafnslæm og fyrri ríkisstjórnar. Ég ætla að ganga lengra en hv. þingmaður vegna þess að ég tel að þau vinnubrögð sem núverandi ríkisstjórn viðhefur hafi aldrei í sögu Alþingis verið jafnslæm. Nú hefur komið upp að fjármálaráðuneytið hefur staðið að sölu á ríkisbönkunum, sem voru 100% í eigu ríkisins, án heimildar úr fjáraukalögum Alþingis. Ég held að þetta mál sé grafalvarlegt og það verði að kanna mjög gaumgæfilega. Þess vegna langar mig að beina þeim spurningum til formanns viðskiptanefndar hvort hún sé mér ekki sammála um að þetta mál verði að skoða ofan í kjölinn, hvort viðskiptanefnd hafi fengið fyrirspurnir um hvort verklagið við sölu á ríkisbönkunum núna standist lög og hvort hún muni ekki kalla á aðila til að leysa úr þessu efni.

Hv. varaformaður fjárlaganefndar sagði að hér væri um ágreining að ræða. Ég lít ekki þannig á. Fjármálaráðuneytið stóð í þessum gjörningi. Ég lít þannig á að þetta sé skýrt brot á þeim lögum sem Alþingi ber að starfa eftir. Ef fjárlaganefndarmenn hafa vitað þetta við afgreiðslu (Forseti hringir.) fjáraukalaga í gær er það einnig grafalvarlegt vegna þess að ég trúi ekki að menn hefðu afgreitt þau lög án þessarar heimildar.