138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að taka undir þessi alvarlegu áminningar- og aðvörunarorð sem komu fram hjá hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni og varða meðferð ríkiseigna. Ég held að hv. þingmaður hafi gert alveg með skýrum hætti grein fyrir því að hverjar sem orsakirnar voru og hvernig sem atburðarásin var í smáatriðum er alla vega skýrt að á ákveðnu tímabili var um að ræða banka sem voru í 100% eigu ríkisins. Þeir eru ekki lengur í 100% eigu ríkisins. Það hefur orðið eignatilfærsla með einhverjum hætti og til að slík eignatilfærsla sé lögmæt þarf hún að vera gerð með heimild frá Alþingi. Það er alveg klárt.

Það sem ég vildi nefna í þessu sambandi er að mér finnst það mál sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson vakti athygli á og verður augljóslega skoðað nánar í fjárlaganefnd, þarf auðvitað að fá nánari skoðun þar. Þetta eru dæmi um vinnubrögð sem við sjáum allt of víða í störfum þingsins þar sem menn göslast áfram í nefndastarfi. Menn göslast áfram með það að markmiði að klára málin bara eftir því sem ráðuneytin segja, einkum þó fjármálaráðuneytið, menn ætla bara að klára að afgreiða þau. Ef athugasemdir koma frá stjórnarandstöðunni er litið á þær sem tafir, vitleysu og málþóf. En svo koma ábendingar eins og í þessu tilviki frá Ríkisendurskoðun sem undirstrikar nákvæmlega það sem stjórnarandstaðan hefur verið að segja í þessu máli og sýnir að stjórnarmeirihlutinn þarf að fara gætilega.

Ég ætla ekki að eigna mönnum einhverjar annarlegar hvatir í þessu sambandi. Ég vil segja við hv. þingmenn stjórnarflokkanna: Þið verðið að átta ykkur á því að þau mál sem við fjöllum um, þetta mál og fleiri mál, eru viðkvæm og erfið mál og menn verða að vanda sig. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)