138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst aðeins taka undir þá umræðu sem átt hefur sér stað um að það sé hugsanlega ekki heimilt fyrir framkvæmdarvaldið að selja bankana. En það er gríðarlega mikilvægt að við fáum úr því skorið og það segir kannski allt um það hvernig við vinnum þessi mál í raun og veru á þingi. Þetta er hlutur sem verður að leiðrétta því að það er ekkert grín fyrir framkvæmdarvaldið að hafa slíkt með sér inn í framtíðina. Ef þarna er hugsanlega verið að brjóta lög getum við lent í miklum skaðabótakröfum seinna meir. Þetta verður því að vera á hreinu.

Ég ætla hins vegar að ræða það sem ég hóf máls á í upphafi þessa þingfundar, þ.e. grafalvarlega stöðu sveitarfélaganna í landinu. Ég sætti mig ekki við að ríkisvaldið hrifsi til sín 2 milljarða frá sveitarfélögunum í formi tryggingagjalds án þess að borga það til baka. Ég sætti mig ekki við þessi vinnubrögð. Hæstv. fjármálaráðherra upplýsti það á fundi fjárlaganefndar að það verði gert en það á að svíkja það. Það er grafalvarlegur vandi í sveitarfélögunum í landinu, (Gripið fram í.) eins og komið hefur fram, og menn verða að bregðast við honum. Til að árétta þetta hefur nú verið lagt fram frumvarp um breytingar á atvinnuleysistryggingunum sem um standa deilur milli sveitarfélaganna í landinu og ríkisvaldsins en samt á að keyra það í gegn án þess að farið verði mjög vel yfir það. Það er gríðarlega mikilvægt að framkvæmdarvaldið breyti þeim vinnubrögðum sem viðgengist hafa því miður allt of lengi á Alþingi, að menn þurfi að kostnaðarreikna frumvörp sem lögð eru fram til að vita hvaða áhrif þau hafa á tekjustofna sveitarfélaganna. Það er bráðnauðsynlegt að það gerist hið fyrsta.

Síðan vil ég líka árétta að sveitarfélög hafa komið með mjög merkilegar hugmyndir um hvernig bregðast megi við bráðavanda sveitarfélaganna. Það er hugmynd um að fækka hugsanlega kennsludögum og voru viðræður við menntamálaráðuneytið um hvernig hægt væri að útfæra það, hugsanlega í samráði við þá aðila sem að því koma. En því miður hefur menntamálaráðuneytið sagt sig frá þeirri vinnu núna og ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að mér finnst (Forseti hringir.) ríkisstjórnin ekki gera sér grein fyrir alvarlegri stöðu sveitarfélaganna í landinu.