138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

ráðstöfun hlutafjár ríkisbankanna o.fl.

[11:02]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það sætir tíðindum að hæstv. utanríkisráðherra heiðri okkur almenna þingmenn með nærveru sinni (Utanrrh.: Það sætir ekki …) við umræður um störf þingsins. Ég hef ekki verið lengi á Alþingi en ég kannast þó við veru mína hér undanfarin 2–3 ár. Það er annað en þingmenn Samfylkingarinnar gera. [Hlátur í þingsal.] Þeir hafa verið einhvers staðar allt annars staðar — að mig minnir — á meðan ríkið fór á hausinn á þeirra vakt. Samfylkingin var á vaktinni og frá því að hún tók sæti í ríkisstjórn hefur Framsóknarflokkurinn vakið athygli á því að hún þyrfti að fara varlega. Það er sannleikurinn í málinu.

En það er eitt grafalvarlegt mál sem ég held að við þurfum að ræða. Ríkisendurskoðun bendir á að bankarnir, ríkisbankarnir af því að þeir heita ríkisbankar, voru í 100% eigu ríkisins. Ég skildi hæstv. utanríkisráðherra þannig að það væri vafamál hvort slíkt væri og þá er það einfaldlega staðreynd að Alþingi Íslendinga er búið að hlutast til um banka sem það hefur væntanlega ekki haft neina heimild til að hlutast til um. Var það ekki Alþingi Íslendinga sem skipaði í stjórn þessara ríkisbanka sem núna voru allt í einu ekki ríkisbankar? Voru það ekki Samfylkingin og Vinstri grænir sem skiptu því bróðurlega á milli sín? Það er enn alvarlegri staða, frú forseti, en sá gjörningur að ríkisstjórnin sé núna búin að selja bankana eitthvað, einkavæða þá væntanlega, án heimildar. Við afgreiddum fjáraukalögin í gærkvöldi. Það er eitthvað verulega bogið við þetta. Og kannski ber það að hæstv. utanríkisráðherra sjái ástæðu (Forseti hringir.) til að heiðra okkur með nærveru sinni bara vott um að hér sé hlutur (Forseti hringir.) sem verður að skoða mjög alvarlega.