138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

ummæli sem féllu í umræðum um störf þingsins.

[11:05]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég get fallist á að nota þetta fundarform til að bera af mér sakir, en ég vil ekki sitja undir því að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson haldi því fram úr ræðustóli Alþingis að það sæti tíðindum að ég heiðri þingmenn með nærveru minni. (HöskÞ: … í þessu tilviki …) Nei, hv. þingmaður orðaði það ekki með þeim hætti. Ég hef ekki gert athugasemd við fjarveru hv. þingmanns úr mikilvægum umræðum en ég gæti gert það. Hv. þingmaður hefur hins vegar notað ræðustól Alþingis til að fara heldur meiðandi ummælum um ýmsa ráðherra með ásökunum um að þeir séu ekki hér þegar þeir eiga að vera hér. Hv. þingmaður tók svo til orða um hæstv. forsætisráðherra að hún væri ekki hér, heldur að sinna einhverju allt öðru. (Forseti hringir.)

(Forseti (RR): Um fundarstjórn forseta, hæstv. ráðherra.)

Hæstv. forseti veit að ég er hingað kominn til að ítreka það og segja sem mína skoðun að ég held að að frátöldum hæstv. fjármálaráðherra sem vegna eðlis umræðna síðustu vikna hefur verið hér mjög mikið hafi enginn ráðherra verið hér jafnmikið og ég. Ég er eini ráðherrann sem kem í hvert einasta skipti sem rætt er um störf þingsins, sit hér og hlusta og (Forseti hringir.) tek eftir atvikum þátt í umræðum.