138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

ummæli sem féllu í umræðum um störf þingsins.

[11:10]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu hæla forseta fyrir röggsama, skelegga og ákveðna fundarstjórn. Það er oft og tíðum illt að eiga við þann söfnuð sem þyrpist inn í sali, hv. þingmenn, og ég tel virðulegan og hæstv. forseta hafa staðið sig með mikilli prýði.

Varðandi efnisatriði þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað undir liðnum um störf þingsins tel ég hins vegar nauðsynlegt að beina þeim tilmælum til virðulegs forseta að það verði skoðað sérstaklega af forsætisnefnd hvort Alþingi Íslendinga þurfi ekki með einhverjum ákveðnum hætti að taka til þess máls sem hér var rætt.

Varðandi síðan þann þátt máls sem lýtur að viðveru ráðherra undir liðnum um störf þingsins fagna ég áhuga hæstvirtra ráðherra, þá sérstaklega hæstv. utanríkisráðherra. Hann hefur sýnt mikinn dugnað í að mæta hér og það ber að virða. Undir þessum lið getur maður komið fram ýmsum upplýsingum í hliðarherbergjum. Ég skal geta þess að ég gaf t.d. hæstv. utanríkisráðherra uppskrift (Forseti hringir.) að því hvernig á að sjóða grásleppu eftir símtal við móður mína. (Forseti hringir.) Ég sé að það hefur reynst honum mjög vel.