138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

70. mál
[11:49]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem kom fram í orðaskiptum hv. þm. Lilju Mósesdóttur og Péturs Blöndals að hér er ekki um merkilegt mál að ræða, svo maður segi eins og er. Málið hefur hjá nefndinni fengið vinnuheitið Frumvarp um fundarboð og er það réttnefni. Ég tel þetta vera frekar til bóta og þess vegna erum við fulltrúar minni hlutans á þessu máli en eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal minntist réttilega á þá er það stórt einstakt verkefni að skapa traust á hlutafélögum.

Ég er ekki sammála hv. þm. Lilju Mósesdóttur sem segir að mestur tími okkar í hv. viðskiptanefnd hafi farið í hrunið og endurreisnina. Þó að ég gangist við því og þreytist ekki á að hrósa hv. þingmanni og formanni nefndarinnar fyrir margt gott í stýringu hennar þá erum við samt sem áður í dag að ræða frumvarp um fundarboð sem mikill tími hefur farið í innan nefndarinnar. Þrátt fyrir að þetta sé lítið mál þá er það líkt og oft er sagt — ég leyfi mér að sletta, virðulegi forseti, ég skal reyna að þýða það jafnóðum — „the devil is in the details“ eða djöfullinn er í smáatriðunum og á það kannski sérstaklega við um tilskipun Evrópusambandsins. Icesave-málið er t.d. skýr afleiðing þess að við tókum upp tilskipun Evrópusambandsins án þess að hugsa um afleiðingarnar, eins og allir vita, við tókum í rauninni allt regluverk um fjármálamarkaðinn upp frá Evrópusambandinu og augljóslega hefði mátt líta það gagnrýnni augum.

Nú sjáum við í fréttunum að búið er að gera samninga í tengslum við Landsbankann. Við fulltrúar stjórnarandstöðunnar höfum kallað eftir því að farið verði yfir þau mál og þau rædd, nú síðast fengum við til okkar forustumenn Landsbankans, en þeir svöruðu ekki þeim spurningum sem til þeirra var beint og ætluðu að senda okkur einhverjar upplýsingar seinna. Þær eru ekki komnar og við erum enn að bíða eftir þeim og afskaplega mikilvægt væri að fá þær núna þegar viðskiptanefnd fjallar um það sem snýr að bönkunum og fjárflæðinu í tengslum við Icesave-samkomulagið. Þar er ekki um eitthvert smámál að ræða heldur gríðarlega mikla hagsmuni og stór mál. Gott samstarf hefur verið í nefndinni og gott að starfa með þeim hv. þingmönnum sem þar eru, hvort sem þeir eru í meiri hluta eða minni hluta, en málin eru af þeirri stærðargráðu að ég tel að þau hefðu átt að taka alla orku nefndarinnar, frumvarp um fundarboð hefði getað beðið fram yfir áramót því það gerir ekkert í því ástandi sem er. Sem betur fer er þó að lokum komin sátt hjá nefndinni um að koma með skýrslu um stöðuna varðandi afskriftir skulda hjá bönkunum. Það er annað stórmál sem er grundvallaratriði til að skapa traust. Á sama hátt er það grundvallaratriði að við vitum hvað við erum að gera og þá er ég að vísa til endurreisnar bankanna. Ríkisendurskoðun segir að við höfum verið að gera hluti sem eru hreinlega ólöglegir, hvorki meira né minna, og við höfum ekki enn farið yfir það í hv. viðskiptanefnd. Ég bað formlega um það 3. desember og hef minnst á það áður að kanna hvað í rauninni var að gerast varðandi einkavæðingu bankanna og á von á að við munum gera það nú á næstu dögum. En það er kominn 16. desember og við erum í miðri fjárlagavinnu þar sem stórslys eru á ferðinni, gríðarlega alvarlegir hlutir og við skulum bara tala um það eins og það er að tími okkar þingmanna fer í að reyna að bjarga því sem bjargað verður. Ég vil trúa því að ýmsir hv. þingmenn stjórnarliðsins sjái þau slys og mistök sem þar eru og ég ætla þeim það að þeir séu að reyna að bjarga því fyrir horn. Ef ekki þá er það ábyrgðarhluti að hafa ekki kynnt sér málið eða að láta málin fara í gegn með þessum hætti og mun það koma illilega niður á þjóðinni. Stærstu málin snúa nú að skattamálunum, hvernig á að skattpína almenning og fyrirtækin og við munum aldrei vinna okkur út úr þessari stöðu með því að leggja á ofurskatta.

Síðan eru gríðarlega stór mál sem ég var að vísa til undir allt öðrum lið sem snúa að heilbrigðismálunum og ég ætla ekki að endurtaka þá ræðu hér. En ég efast ekki um að í ýmsum öðrum málaflokkum eru varhugaverðir hlutir í gangi þannig að nú eru, virðulegi forseti, erfiðir tímar og við þurfum að vinna hratt og skipulega til að bjarga því sem bjargað verður.

Í örstuttu máli, virðulegi forseti, frumvarp um fundarboð. Eftir að hafa farið í gegnum það á nokkrum fundum nefndarinnar virtist það vera meinleysislegt og við ákváðum að styðja það. Það mun ekki valda neinum straumhvörfum í íslensku samfélagi og ég efast um að margir muni finna fyrir því með einhverjum hætti. Það sem er alvarlegt í þessu er að við skyldum ekki bíða með það og taka fyrir önnur stærri og mikilvægari mál sem virkilega liggur á. Það sem snýr að viðskiptanefndinni núna er fyrst og fremst það að byggja upp traust varðandi það hvernig bankarnir vinna að afskriftum bæði við fyrirtæki og skuldara. Það er gríðarlega mikilvægt, ég tala ekki um ef menn ætla að fara þá óheillabraut sem eftir verður tekið, ekki bara fyrir jólin eða í janúar heldur um alla framtíð, að keyra Icesave eins og það liggur fyrir núna. Þá er eins gott að við förum almennilega yfir það og hverjir eiga bankana og hvernig þau skipti hafa farið fram. Í fyrsta lagi þurfum við að gera þetta lögformlega rétt. Í annan stað verður auðvitað að vera skynsemi í þessu og ég ætla að allir hv. þingmenn nálgist þetta með svipuðum sjónarmiðum en við verðum að hafa tíma til þess og því þurfum við að forgangsraða.