138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

70. mál
[11:57]
Horfa

Frsm. viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir stuðninginn við þetta frumvarp. Ég veit að hann er þeirrar skoðunar að önnur mál þurfi frekar skoðunar við hjá nefndinni en lítið boðunarfrumvarp, eins og hann kallaði það í máli sínu áðan.

Þetta frumvarp er þó að mínu mati mjög mikilvægt skref þó að það sé lítið, en ég minni á að oft veltir lítil þúfa þungu hlassi þannig að við megum ekki vanmeta þessar litlu breytingar sem geta oft og tíðum orðið til að byggja upp miklar breytingar á því umhverfi sem fyrirtækin búa við. Það að minni hluthafar fái lengri boðunarfrest þýðir auðvitað að líkurnar á því að þeir geti sótt hluthafafundi aukast og það skiptir máli þegar kemur að áhrifum á ákvarðanatökur í fyrirtækjum. Rannsóknir sýna að ein orsök þess að bankakerfi hrynja og þar með mörg fyrirtæki er takmarkaður réttur eða vernd minnihlutaeigenda. Okkur Íslendingum ber að læra af reynslu okkar og annarra þjóða og bæta vernd minnihlutaeigenda.