138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[12:01]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 1. minni hluta hv. viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og einkahlutafélög. Markmið frumvarpsins er að auka gagnsæi á eignarhaldi og atkvæðisrétt hluthafa í íslenskum hlutafélögum, svo og vissum einkahlutafélögum og stuðla að jafnari hlutföllum kvenna og karla í áhrifastöðum þessara félaga. Frumvörp sama efnis voru afgreidd frá nefndinni á 136. og 137. löggjafarþingi en urðu ekki útrædd í þinginu.

Með frumvarpinu eru lagðar til þrenns konar breytingar á lögum um hlutafélög en ein þeirra tekur einnig til laga um einkahlutafélög. Í fyrsta lagi er lögð til breyting á ákvæðum laga um hlutafélög í þá veru að skylda stjórn hlutafélags til að sjá til þess að hlutaskrá geymi á hverjum tíma réttar upplýsingar um hluthafa, hlutafjáreign þeirra og atkvæðisrétt. Þá skuli stjórn félags leggja fyrir aðalfund samantekt um hlutafjáreign einstakra hluthafa, rétt þeirra til að greiða atkvæði og um breytingar sem orðið hafa á árinu. Sambærilegar upplýsingar skal stjórnin leggja fyrir aðalfund um samstæðutengsl félagsins. Tilgangur þessara ákvæða er að auka gagnsæi hvað varðar eignarhald og atkvæðisrétt í íslenskum hlutafélögum og koma þannig til móts við þá gagnrýni að það hafi skort í íslensku viðskiptalífi.

Þá er í öðru lagi lagt til að tekin verði upp í lög um hlutafélög og lög um einkahlutafélög ákvæði um að gæta skuli að kynjahlutföllum í stjórnum og við ráðningu framkvæmdastjóra. Gert er ráð fyrir því að í tilkynningum um stjórnir til hlutafélagaskrár skuli sundurliða upplýsingar um hlutfall kynja í stjórn og jafnframt að í félögum þar sem starfa að jafnaði fleiri en 25 starfsmenn á ársgrundvelli skuli einnig sundurliða upplýsingar um hlutföll kynjanna meðal starfsmanna og stjórnenda félaganna. Upplýsingagjöf af þessu tagi þjónar því hlutverki að gera sýnilegan hlut karla og kvenna í starfsemi félaga til þess að leiðrétta megi halla sem slík upplýsingagjöf kann að leiða í ljós.

1. minni hluti leggur til breytingu á þessum þætti frumvarpsins sem nánar verður gerð grein fyrir síðar.

Í þriðja lagi er í 4. gr. frumvarpsins lagt til að við lög um hlutafélög verði bætt ákvæði um starfandi stjórnarformenn. Ákvæðið byggist m.a. á áliti nefndar um íslenskt viðskiptaumhverfi frá september 2004. Fram hefur komið að ákvæðið er byggt á grein í dönskum lögum um hlutafélög en þar á það þó aðeins við um félög sem eru skráð á markað. Um það var rætt í nefndinni að ákvæðið gæti orðið of íþyngjandi fyrir minni hlutafélög. Benda má á að hérlendis starfa mörg stór félög sem ekki eru skráð og má geta þess að yrði gerð breyting um að 4. gr. frumvarpsins næði aðeins til skráðra félaga mundi hún einungis ná til 12 hlutafélaga. 1. minni hluti ítrekar enn fremur að hlutverk stjórnarformanns er að stýra eftirliti stjórnarinnar með félagi. Því verður að telja hættu á hagsmunaárekstrum ef stjórnarformaður er jafnframt starfsmaður félagsins þar sem hann stjórnar þá í raun eftirliti með sjálfum sér. Með ákvæðinu er stefnt að því að minnka líkur á slíkum hagsmunaárekstrum en verði frumvarpið að lögum mun stjórn félags þó geta falið stjórnarformanni að vinna einstök verkefni fyrir hana.

Um það var rætt í nefndinni hvort ákvæði frumvarpsins þyrftu ekki að vera afdráttarlausari en svo að mæla fyrir um að gætt skuli að kynjahlutföllum í stjórnum. Sumir gesta nefndarinnar töldu að ganga ætti lengra og var m.a. vísað til norskra laga um það efni en í þeim er tilgreindur lágmarksfjöldi af hvoru kyni í stjórnum hlutafélaga í hlutfalli við fjölda stjórnarmanna. Við setningu norsku laganna var félögum veittur rúmur tími til aðlögunar. Einnig kom fram það sjónarmið í umræðum í nefndinni að nú þegar hvíldu skyldur á félögum samkvæmt jafnréttislögum. Sumum þótti sú viðbót sem kveðið er á um í frumvarpinu óljós en aðrir gerðu ekki athugasemdir við að í lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög væri að finna almenn hvatningarorð um að gætt skuli að jafnrétti kynjanna.

Um þetta bendir 1. minni hluti á að hlutfall kvenna í stjórnum íslenskra fyrirtækja er nokkuð lægra að meðaltali en annars staðar á Norðurlöndunum og reyndar talsvert lægra en í Noregi og Svíþjóð. Aðeins 15% allra fyrirtækja á Íslandi höfðu á árinu 2009 bæði kynin í stjórn. Þá hafa komið fram vísbendingar um að konum í stjórnum fyrirtækja hér á landi hafi fækkað eftir hrunið þrátt fyrir heitstrengingar um hið gagnstæða.

Í Noregi er í gildi kvóti sem mælir fyrir um hlutfall hvors kyns fyrir sig í stjórnum sem hlutfall af heildarfjölda stjórnarmanna og að ef stjórnarmenn eru fleiri en fimm skuli hlutur hvors kyns ekki vera minni en 40%. Kvótinn hefur leitt til þess að Noregur stendur framar öllum öðrum þjóðum er kemur að jafnræði kynjanna í stjórnum fyrirtækja. Þegar kynjakvótinn var innleiddur árið 2004 var hlutfall kvenna 9% í stjórnum fyrirtækja sem skráð voru í Kauphöllinni í Ósló en hækkaði upp í 36% árið 2009. Til stendur að endurskoða lögin þannig að þau nái til meðalstórra og minni fyrirtækja, þar á meðal þeirra sem eru að hluta til í eigu sveitarfélaga. Talið er að kynjakvótinn nái til um 500 hlutafélaga.

Þess má geta að mörg hlutafélög í Noregi áttu í erfiðleikum með að ná 40% hlutfalli kvenna á aðlögunartímanum en hann fól í sér að ná þurfti markinu í kosningum á tveimur aðalfundum. Forustufólk Samtaka atvinnulífsins, Félags kvenna í atvinnurekstri og Viðskiptaráðs Íslands og fulltrúar allra stjórnmálaflokka skrifuðu undir samkomulag í maí 2009 þar sem hvatt er til fjölgunar kvenna í forustusveit íslensks atvinnulífs. Markmiðið er að í lok árs 2013 verði hlutfall hvors kyns ekki undir 40%.

Samkvæmt niðurstöðum rannsókna í Finnlandi og Danmörku skila félög sem hafa stjórnarmenn af báðum kynjum eða kvenkyns forstjóra meiri arðsemi en þau félög sem hafa einsleitar stjórnir. Fram kemur í nýlegri rannsókn á 101 fyrirtæki hér á landi að jákvætt marktækt samband sé milli þess að hafa bæði kynin í stjórn fyrirtækis og arðsemi eigin fjár og veikt en jákvætt samband sé við arðsemi heildareigna.

Virðulegi forseti. Með hliðsjón af framangreindu leggur 1. minni hluti til breytingu á 2. og 8. gr. frumvarpsins sem snertir opinber hlutafélög sem og hlutafélög og einkahlutafélög þar sem starfa að jafnaði fleiri en 50 starfsmenn á ársgrundvelli. Ákvæðin snerta því félög af þessari stærðargráðu og munu ná til um 352 fyrirtækja, þar af 129 hlutafélaga, 5 opinberra hlutafélaga og 218 einkahlutafélaga. Nauðsynlegt þótti að láta ákvæðið ná til einkahlutafélaga í ljósi reynslunnar í Noregi en þar nær ákvæðið ekki til einkahlutafélaga og er talið að slíkt félagaform hafi orðið algengara vegna kynjakvótans. Er lagt til að þegar um hlutafélög ræðir skuli hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn þegar stjórnarmenn eru þrír en þegar þeir eru fleiri en þrír skuli hlutfall hvors kyns ekki vera lægra en 40%. Hvað einkahlutafélögin snertir er lagt til að þegar stjórnarmenn eru tveir eða þrír skuli hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn en þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír skuli hlutfall hvors kyns ekki vera lægra en 40%. Þá er gert ráð fyrir því í breytingartillögunni að ef niðurstaða stjórnarkjörs samræmist ekki ákvæðum laganna, verði frumvarpið að lögum, megi samþykkja breytingu á því, þ.e. með nýrri ákvörðun hluthafafundar. Ákvæði um hvernig skuli leyst úr slíkum tilvikum skal félag setja í samþykktir sínar. Þessu gæti t.d. verið farið þannig að verði þrjár konur kjörnar í þriggja manna stjórn mundi ein þeirra skipta um sæti við karl í varastjórn, hann færi í félagsstjórn en konan tæki sæti í varastjórn. Áréttað skal að félag setji sér reglur um þetta í samþykktum. Þá er tekið fram að hlutföll kynjanna í stjórn og varastjórn skuli í heild vera sem jöfnust.

Í breytingartillögunni er gert ráð fyrir rúmum aðlögunarfresti þannig að ákvæði laganna sem lúta að kynjahlutföllum í stjórnir öðlist gildi 1. september 2013 og fá þau félög sem ákvæðið nær til því rúman tíma til aðlögunar eða fjóra aðalfundi. Þannig gefst atvinnulífinu færi á að leiðrétta sjálft það misræmi sem hefur verið. Einnig miðast gildistakan við framangreindan samning FKA, SA og Viðskiptaráðs.

1. minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindri breytingu sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Undir nefndarálit 1. minni hluta hv. viðskiptanefndar ritar sú sem hér stendur, Magnús Orri Schram, Arndís Soffía Sigurðardóttir og Valgerður Bjarnadóttir.