138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[12:42]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hv. þm. Ragnheiðar E. Árnadóttur hvort hún hafi ekki áhyggjur af því að hlutfall kvenna í nýskráðum hlutafélögum fer lækkandi. Bendir það ekki til þess að konur og karlar hafi ekki sömu tækifæri til að setjast í stjórnir félaga á hinum almenna markaði?

Síðan vil ég árétta það að ákvæðið um kynjakvóta sem 1. minni hluti leggur til er mjög veikt ákvæði. Þarna er verið að gefa hlutafélögum og einkahlutafélögum tækifæri fram til 1. september 2013 til að verða við ósk um að hlutfall hvors kyns sé ekki minna en 40%. Ákvæðið tekur ekki gildi fyrr en eftir tæp fjögur ár. Það er auðvitað ósk okkar í 1. minni hluta að þetta ákvæði þurfi aldrei að taka gildi, að fyrirtækin taki það bara upp hjá sér að uppfylla þetta áður en ákvæðið kemur til framkvæmda.

Ég vil líka geta þess að þegar ákvæði um kynjakvóta hjá opinberum fyrirtækjum var tekið upp í jafnréttislögunum varð ákveðið misræmi milli opinbera geirans og einkageirans hvað það varðaði að hafa jöfn hlutföll kynjanna í stjórnum fyrirtækja. Það sem við erum að sjá eftir að þetta ákvæði kom inn í jafnréttislögin er að konur í stjórnum opinberra hlutafélaga þurfa að víkja fyrir jafnrétti. Það er að mínu viti ekkert réttlæti í því að konur víki til að auka jafnrétti (Forseti hringir.) þegar ójafnréttið snýst fyrst og fremst um það að of fáar konur eru í stjórnum fyrirtækja á Íslandi.