138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[12:49]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá að nota þetta andsvar til að lýsa því yfir að ég er stoltur meðlimur 1. minni hluta viðskiptanefndar og að bera þetta frumvarp fram og óska eftir því að það fái greiða leið í gegnum þingið því að þetta er mjög mikilvægt mál. Í sjálfu sér virðumst við öll vera sammála um þann anda, það markmið sem við viljum ná með þessum lögum. Þetta er þá aðeins spurning um leiðirnar.

Fyrst vil ég segja í sambandi við þau orð sem féllu áðan að ég tel að við séum að vinna þetta í góðu samstarfi við íslenskt atvinnulíf og þá fyrst og fremst vegna þess að við erum að gefa rúman tíma til þess. Hér erum við ekki að koma neinum að óvörum. Hér er um að ræða fjóra aðalfundi sem menn hafa til að koma skikki á sín mál.

Ég tel að hv. framsögumaður hafi farið ágætlega yfir málið áðan en ég vil ítreka einn punkt sem kom fram í ræðu hennar. Það er að ástandið í dag, árið 2009, er þannig að 11% þeirra sem eru skipaðir í stjórnir íslenskra fyrirtækja eru konur. Við erum að tapa baráttunni og við þurfum að grípa til aðgerða sökum þessa. Hér fáum við gott tæki til þess að grípa til alvarlegra aðgerða vegna þess að þróunin er ekki góð.

Ég vil líka segja að ég held að það sé ekki rétt af þingmönnum að vitna til gesta nefnda sem komu fyrir okkur og skiluðu ekki inn skriflegri umsögn vegna þess að hér var vitnað til eins gests. Ég segi fyrir mitt leyti að ég túlkaði orð hennar sem hvatningu til löggjafans til að stíga alvarlegt skref í þessu máli, raunhæft og gott skref, sem við erum að gera í þessu áliti, vegna þess að hún sagði, eins og ég skildi hana, að lagasetningin væri í raun og veru eina leiðin til að vekja fólk til vitundar. Átakið er gott og vonandi fær það framgang af því að við erum öll sammála um það markmið sem við viljum ná. Ljósið við enda ganganna er hreint og klárt og það er ekki rétt að — ég ætla að fá að halda áfram í seinna andsvari mínu því það er margt sem ég vil segja um þetta mál. (Forseti hringir.)