138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[12:52]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Nei, við erum sannarlega ekki sammála um leiðir. Við erum sannarlega sammála um hvert skal stefna. Við erum ekki sammála um leiðir og við erum greinilega að heyra hlutina með ólíkum hætti vegna þess að ég heyrði þá gesti sem komu og ég vitnaði til aldrei segja að lagasetningin væri leiðin heldur voru þeir þvert á móti allt að því að (Gripið fram í: Jafnréttisstofa.) — Jafnréttisstofa, það kemur á óvart, ég var heldur ekki að vitna í orð hennar, þannig að það sé skýrt. Hv. þm. Magnús Orri Schram vitnaði í gesti sem ég hafði nefnt en ég nefndi Jafnréttisstofu aldrei á nafn.

Vegna þess að hv. þm. Magnús Orri Schram segir að þetta sé í góðu samstarfi þá vil ég, með leyfi forseta, lesa upp úr umsögn Viðskiptaráðs Íslands. Ég gríp hér niður:

„Í ljósi þessarar almennu samstöðu atvinnulífs og þingflokka um nauðsyn þess að fjölga konum í forustusveit atvinnulífsins með þeim hætti sem lýst var að ofan“ — ég vek athygli á að verið var að tala um samstarfssamninginn — „kemur þessi breytingartillaga á óvart.“

Síðar segir:

„Undanfari þessarar tillögu er eflaust að hluta umræða um að áðurnefnt samkomulag hafi ekki borið árangur. Í þeim réttum er rétt að vekja athygli nefndarmanna á að samkomulagið var undirritað fyrir aðeins nokkrum mánuðum …“

Síðan segir hér og það getur ekki verið skýrara, ef þetta góða samstarf er eitthvað í huga hv. þingmanns:

„Það er ekki heppilegt að löggjafinn grípi af fljótfærni fram fyrir hendurnar á íslensku atvinnulífi með þessum hætti. Ofangreind samtök eru sammála um að það sé bæði nauðsynlegt og skynsamlegt að fjölga konum í forustusveit atvinnulífsins — sú leið sem breytingartillagan felur í sér er hins vegar ekki heppileg.“

Ég heyri kannski aðra hluti en hv. þingmaður. En þetta getur ekki verið skýrara en það sem ég var að lesa, þ.e. vilji Viðskiptaráðs, og ég get farið í fleiri umsagnir ef þingmaðurinn kýs svo. Vilji Viðskiptaráðs er sá að þessi leið verði ekki farin og þetta sem ég las lýsir ekki góðu samstarfi að mínu viti.