138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[12:54]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum kannski komin í orðastagl og ættum ekki að eyða dýrmætum tíma til þess. Það sem ég vildi sagt hafa er að ég skildi orð hv. gests með þeim hætti, og þegar ég segi í samvinnu við atvinnulífið, þá erum við og atvinnulífið sammála um það markmið sem við viljum ná. (Gripið fram í.) Ég segi það líka, okkur greinir á um leiðirnar, en ég lít svo á að við séum að vinna þetta mál í anda þess sem atvinnulífið vill að við gerum en við í löggjafanum verðum að rækta okkar hlutverk sem löggjafarsamkunda og leið okkar til að ná slíku markmiði fram er þessi.

Hv. þingmaður sagði: Það dregur úr metnaði átaksins að við förum inn með lagasetningarvald en markmiðið með átakinu hlýtur að vera, alveg eins og markmið okkar er, að ná verulegum árangri í þessum jafnréttismálum og löggjafinn stígur fram eða a.m.k. minni hluti viðskiptanefndar leggur til að löggjafinn stígi fram og kveði á um það skýrt að markmiðinu skuli ná árið 2013. Þar erum við að rækta okkar hlutverk.