138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[13:15]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Herra forseti. Ég vil taka það skýrt fram hér að ég er mikill jafnréttissinni. Þetta mál snýst ekki um það hvort maður er með eða á móti jafnrétti. Þetta snýst um aðferðafræði. Þetta snýst um leiðir að markmiði sem við deilum öll sem sitjum hér í þessum sal, nefnilega það að hlutfall karla og kvenna verði sem jafnast í viðskiptalífinu sem og annars staðar í samfélaginu. Aðferðin sem verið er að færa hér í lög, það er hún sem ég geri athugasemdir við með því að greiða atkvæði gegn þessari tillögu.

Við studdum fyrir nokkrum mánuðum, fulltrúar allra stjórnmálaflokka, samstarfssáttmála sem Samtök atvinnulífsins og félög innan atvinnulífsins hafa sett af stað þar sem þau einsetja sér að þessu markmiði verði náð með hvatningu og með markvissum aðgerðum fyrir árið 2013. Ég legg til, herra forseti, að þeim samstarfssamningi verði (Forseti hringir.) leyft að renna sinn gang áður en það verður þvingað (Forseti hringir.) fram með lagasetningu á Alþingi. Ég segi nei.