138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[13:25]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Hér er verið að greiða atkvæði um nokkrar greinar í einu. Það ákvæði sem kemur að einhverju leyti inn á hlutfall kynjanna er 3. gr. þar sem talað er um að gætt skuli að kynjahlutföllum við ráðningu framkvæmdastjóra og skulu hlutafélagaskrá gefnar upplýsingar í tilkynningum til skrárinnar um hlutföll kynjanna meðal framkvæmdastjóra. Enn á ný endurspeglar þetta skýrt vilja Alþingis varðandi það að gætt sé að kynjahlutföllum við ráðningu framkvæmdastjóra. Konur hafa verið í miklum minni hluta sem stjórnendur fyrirtækja og það er mjög mikilvægt að það sé skýrt frá hendi stjórnvalda að þessu viljum við breyta.

Varðandi 4., 5., 6. og 7. gr. vil ég sérstaklega ræða aðeins 4. gr. þar sem ég tel að hún sé mjög mikilvæg. Þar kemur fram að formaður félagsstjórnar skuli ekki taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem stjórnarformanns að undanskildum einstökum verkefnum sem félagsstjórn felur honum að vinna fyrir sig.

Þetta er ákvæði sem var löngu tímabært að koma inn í íslensk lög, að það sé í hæsta máta óeðlilegt að formaður félagsstjórnar sé að taka að sér umfangsmikil verkefni, jafnvel fullt starf, fyrir félög og hefur svo sem komið í ljós að upp hafa komið hagsmunaárekstrar (Forseti hringir.) varðandi þetta. Ég segi því já við þessum greinum.