138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

fundargerðir af fundum ráðherra með erlendum aðilum.

270. mál
[13:50]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þingmaður getur auðvitað bara fellt alla þá dóma sem hún vill um frammistöðu utanríkisráðherra eða annarra ráðherra. Það eru hennar forréttindi og hún verður bara að meta það. Ég hef margoft heyrt af munni hv. þingmanns og reyndar fleiri þingmanna í hennar flokki að þeim þyki til lítils hafa verið unnið.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé hlutverk utanríkisráðherra að koma sjónarmiði Íslands á framfæri. Það hef ég gert vegna þess að ég hef haft tækifæri til þess að hitta mjög marga utanríkisráðherra og ég hef gert það svikalaust. Þetta hafa ekki allt verið einkafundir, embættismenn hafa verið á meiri hluta þeirra og embættismenn annarra líka. En umhverfi þessara funda er umhverfi trúnaðar og það gerir það að verkum að menn tala mjög frjálslega og menn geta leyft sér, ekki síst viðmælandinn, að varpa fram alls konar viðhorfum og skoðunum.

Það er svo rangt sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sagði hérna áðan, að engir hefðu verið viðstaddir og engir punktar verið teknir. Ég fór rækilega yfir það í minni tölu. Hv. þingmaður hefur ekki hlustað. (Gripið fram í.) Svo spyr hv. þingmaður hvort ég telji að þeir hafi skilað árangri. Já, ég tel að þeir hafi skilað árangri. Ég tel að þeir hafi skilað árangri í sumar og í haust. Ég tel t.d. að sá fundur sem ég átti sameiginlega í New York með Miliband, utanríkisráðherra Bretlands, og Verhagen, utanríkisráðherra Hollands, hafi skilað þeim árangri að það tókst að kom inn í þríhliða ráðherrayfirlýsinguna ákvæði um að Ísland gæti hvatt til viðræðna ef forsendur brygðust, jafnvel þó að hinir tveir væru annarrar skoðunar. Ég tel að það ásamt ákveðnum ákvæðum í samningnum gjörbreyti stöðu okkar ef einhvern tíma reynir á dómstólaleiðina.

Ég tel sömuleiðis að samtöl mín við Strauss-Kahn og samtöl hæstv. fjármálaráðherra hafi skipt töluvert miklu máli við að greiða úr þeirri flækju sem afgreiðsla á endurskoðun samningsins við AGS og afgreiðsla lánanna var þá komin í. (Forseti hringir.) Margt fleira gæti ég auðvitað sagt um þessi mál en þetta tel ég að hafi skipt máli.