138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

kynning á málstað Íslendinga í Icesave-málinu.

284. mál
[13:56]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég geri engar athugasemdir við það að hv. þingmaður gagnrýni mig sem er pólitískt kjörinn fulltrúi. Og ég er stjórnmálamaður. En mér finnst að hv. þingmaður eigi að láta starfsmenn utanríkisþjónustunnar sem embættismenn í friði. Mér finnst að með þessari fyrirspurn sinni og með þeim hætti sem hún bar hana fram hafi hún sneitt að því að þeir hafi unnið sitt starf.

Það er fullkomlega ósambærilegt að bera saman annars vegar það átak sem hefur verið í gangi og var sérstaklega í gangi af hálfu utanríkisþjónustunnar þegar þetta mál kom upp og hins vegar framboð til öryggisráðsins sem hófst, eins og hv. þingmaður veit, í tíð formanns Sjálfstæðisflokksins. Var miklu til kostað og þeir peningar fóru ekki síst í það að fjölga starfsmönnum í utanríkisþjónustunni til þess að undirbúa það. Það kom að vísu þessu máli til góða.

Auðvitað hefur utanríkisþjónustan öll og sérstaklega á fyrstu mánuðunum eftir hrunið verið undirlögð í baráttu til þess að bæta málstað Íslands og koma honum á framfæri. Það hefur verið gert með ýmsum hætti. Í fyrsta lagi eru það starfsmenn utanríkisþjónustunnar erlendis og ekki síst þeir sem gegna þeim í þeim tveimur löndum sem voru mest undir, Bretlandi og Hollandi. Það voru starfsmenn utanríkisþjónustunnar hér heima og það var ráðherrann, sem kannski minnstur slægur var þó í, en það var þetta samfellda starf allra starfsmannanna, starfsmannaþjónustunnar sem hefur verið byggð upp hér á síðustu árum, sem mestu skipti í þessu sambandi. Ég tel sömuleiðis að ákveðnir fundir sem ég átti hafi skipt máli, t.d. við framkvæmdastjóra NATO og framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Ég bendi sérstaklega á það að starfssvið sendiráðsins í Lundúnum gjörbreyttist allt. Það má segja að það hafi meira og minna starfað að þessu máli síðan hrunið varð. Starfsmenn þess hafa átt í miklum samskiptum við bæði embættismenn í utanríkisráðuneytinu, embættismenn í forsætisráðuneytinu breska, við breska þingmenn, sérstaklega ræktað góðan hóp Íslandsvina sem þar er að finna. Þeir hafa við hvaða tækifæri sem er komið sjónarmiðum Íslands á framfæri, leiðbeint blaðamönnum, sent þá til Íslands, fengið þá til þess að koma og þannig reynt að bæta stöðu og málstað Íslands eins og hægt er. Því hefur mjög mikið hvílt á sendiráðinu í Bretlandi sem er líka, eins og hv. þingmaður veit, sendiráð Íslands gagnvart Hollandi.

Ef það er eitthvað eitt sem ég vil draga sérstaklega fram er það með hvaða hætti sendiráðið í Bretlandi brást við þegar skýrsla kom frá bresku fjármálanefndinni þar sem voru dregnir fram ákveðnir hlutir. Það var hent á lofti af sendiráðinu og utanríkisþjónustunni og því var komið á framfæri við fjölmiðla með sérstökum skilaboðum til allra þingmannanna á breska þinginu. Ég held að það sé alveg hægt að segja hér að þáverandi sendiherra okkar í Bretlandi stóð sig ákaflega vel í þessu. Sendiráð Íslands gagnvart Belgíu og Evrópusambandinu hefur að sjálfsögðu líka tekið á sig mikinn þunga og það er rétt að minna á að það var það sem bar hitann og þungann af því að ná málinu úr þeim mikla hnút sem það var komið í hér eftir að búið var að rita undir ákveðið minnisblað sem menn vildu síðan ekki hrinda í framkvæmd sem samningsgerningi. Það var það sem bar hitann og þungann af því starfi sem leiddi til þess sem við kölluðum Brussel-viðmiðin. Það er því alveg ljóst að utanríkisþjónustan hefur skipt mjög miklu máli og lagt mjög mikið af mörkum til að kynna og bæta málstað Íslands. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka starfsmönnum utanríkisþjónustunnar fyrir það sem ég tel að hafi verið ákaflega vel unnið starf.

Sömuleiðis hafa allar sendiráðsskrifstofurnar, og sérstaklega þær sem eru í Evrópu, náttúrlega verið önnum kafnar við hvert tækifæri sem hægt er til þess að koma málstaðnum á framfæri við aðra embættismenn, við ráðuneytisstjóra, við alla þá sem koma hingað til heimsókna og sömuleiðis þarna úti.

Það sem kannski er veigamest er með hvaða hætti utanríkisþjónustan og sendiráðin hafa þjónustað fjölmiðla í þessu máli. Ég vil líka geta þess sem ég nefndi áðan að ákveðnum málatilbúnaði, t.d. beitingu hryðjuverkalaganna, var harkalega mótmælt á fundi NATO-ráðsins af sendiherra okkar hjá NATO.

Ef menn ætla síðan að velta fyrir sér hvað þetta kostar er mjög erfitt að meta það. Það er erfitt að meta hvað það kostar í reynd þegar stórum hluta, lunganum úr utanríkisþjónustunni, er snúið upp í það að reyna að verja málstað og sækja fram í þessu máli, en auðvitað kostar það hundruð milljóna. Menn gera ekki annað á meðan.