138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

kynning á málstað Íslendinga í Icesave-málinu.

284. mál
[14:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil taka fram að mér þykir vænt um að þeir þingmenn sem núna hafa talað hafa sérstaklega tekið fram að þeir telji utanríkisþjónustuna og starfsmenn hennar hafa staðið sig vel í þessu máli. Sérstaklega vakti það eftirtekt mína, ánægju og gleði að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir tók það sérstaklega fram að hún teldi starfsmenn utanríkisþjónustunnar og þjónustuna hafa staðið sig vel í þessu.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði að ég hefði staðfest með orðum mínum áðan — ég hugsa að hann hafi átt við að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki viljað hrinda til framkvæmda þeim gerningi sem staðfestur var með undirskrift nokkurra embættismanna í október 2008. Þá er rétt að það komi fram af minni hálfu að ég hef áður sagt, sérstaklega varðandi núverandi formann Sjálfstæðisflokksins, að mér er kunnugt um að hann hafi t.d. verið þeim gerningi ósamþykkur. Ég er algjörlega klár á því að sá gerningur naut engra sérstakra vinsælda í hvorugum fyrrverandi stjórnarflokka.

Hv. þm. og fyrirspyrjandi Ragnheiður Elín Árnadóttir spyr mig síðan hvort það hafi verið einhver samræmd áætlun. Já, það var áætlun uppi um að nýta sem best starfskrafta utanríkisþjónustunnar, þ.e. það var fylgst nákvæmlega með þróun umræðunnar. Það er sérstakt fyrirtæki sem segja má að hafi fylgst fyrir okkur með fjölmiðlaumræðu bæði í Hollandi og Bretlandi og út frá umræðunni var hægt að meta hvar þyrfti helst að sækja fram, hvar þyrfti helst að koma efnispunktum á framfæri. Ráðuneytið tók á hverjum tíma fyrir sig saman slíka efnispakka og kom út með samræmdum hætti til sendiráðsskrifstofanna og sömuleiðis til fjölmiðla, bæði hér á landi og erlendis. Með þeim samræmda hætti, af því að hv. þingmaður spyr um það, var reynt að koma málstað Íslands á framfæri.

Ég vil að lokum segja að ég held að Íslendingum hafi tekist vel að koma (Forseti hringir.) málstað sínum á framfæri. Ég held að orðstír okkar og það traust sem laskaðist komi miklu skjótar aftur upp úr (Forseti hringir.) kafinu en margir halda, og er þegar byrjað.