138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

hótanir, Evrópusambandið og Icesave.

303. mál
[14:09]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Frú forseti. Enn höldum við áfram með sama mál. Nú vil ég beina fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra með vísun í ummæli hæstv. fjármálaráðherra í þingræðu 2. desember sl. Þar segir hæstv. fjármálaráðherra, með leyfi forseta:

„Það var ekki talað hátt hér fyrstu vikurnar eftir að grímulausar hótanir bárust frá aðilum innan Evrópusambandsins um að láta okkur hafa verra af ef við drifum okkur ekki í að klára Icesave. Það var ekki talað hátt um það hérna (Gripið fram í: Snýst þetta um Evrópusambandið?) af skiljanlegum ástæðum. Það snýst ekki neitt um neitt. Ég er einfaldlega að tala um hinn augljósa veruleika að ýmislegt tengt okkar stöðu nú er viðkvæmt. Er það eitthvað skrýtið?“

Þetta þóttu mér merkileg ummæli og hefur öðrum þótt það líka. Hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir spurði hæstv. forsætisráðherra um þetta 3. desember og þá sagði hæstv. forsætisráðherra að það hlyti að vera einhver misskilningur í gangi, að fjármálaráðherra hefði verið að vísa til hótana Breta á haustdögum 2008 þegar þeir hótuðu að segja upp EES-samningnum. En eins og ég las upp segir hæstv. fjármálaráðherra að þetta hafi verið grímulausar hótanir sem bárust frá aðilum innan Evrópusambandsins um að láta okkur hafa verra af. Ég spyr hæstv. utanríkisráðherra sem gæti upplýst um það þar sem hann átti sæti í báðum þeim ríkisstjórnum sem um ræðir hvort hann geti skýrt þetta mál út fyrir okkur. Hvaða aðilar innan Evrópusambandsins höfðu uppi grímulausar hótanir, eins og hæstv. fjármálaráðherra nefnir hér, um að láta Íslendinga hafa verra af, svo við notum orðfæri hæstv. fjármálaráðherra, ef þeir drifu sig ekki í að klára Icesave eins og það var orðað?

Síðan spyr ég hæstv. ráðherra um viðbrögð hans eða hans ráðuneytis, utanríkisráðherra, enda var hann eftir mínu besta minni starfandi utanríkisráðherra á þeim tíma, og hvernig brást utanríkisþjónusta starfandi utanríkisráðherra við ef þetta á við um þessa daga þarna á undan?

Ég spyr um þetta vegna þess að menn hafa orðið mjög margsaga í þessu. Ég tók eftir því í ræðu hæstv. utanríkisráðherra áðan að hann talaði sérstaklega um að hann hefði rætt við forseta Finnlands um norrænu lánin og beðið Finna um liðsinni við að ræða við norræna kollega sína. Á sama tíma segir hæstv. forsætisráðherra okkar, Jóhanna Sigurðardóttir, 10. október samkvæmt frétt sem birtist á vefritinu amx.is:

„Ég held að það sé alveg skýrt og klárt að norrænu lánin eru ekki tengd Icesave-samningnum að neinu leyti öðru en því (Forseti hringir.) að norrænu lánin eru liður í þeirri áætlun …“

Þessar endalausu umræður um það hver hótaði (Forseti hringir.) hverjum verða að fara að komast á hreint og (Forseti hringir.) ég bið hæstv. utanríkisráðherra um að skýra málið.