138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

hótanir, Evrópusambandið og Icesave.

303. mál
[14:19]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þetta er mjög skemmtilegur leikur og mikil fjallabaksleið sem tvær hv. þingkonur Sjálfstæðisflokksins hafa nú farið í þessu máli, að spyrja fyrst hæstv. forsætisráðherra og síðan hæstv. utanríkisráðherra út í ummæli mín sem ég hefði með mikilli gleði útskýrt fyrir hv. þingmönnum. Þau áttu ekki að þurfa að misskiljast, það hefði örugglega ekki gert það ef ég hefði fengið frið í ræðustólnum fyrir frammíköllum þegar ég fjallaði um þennan þátt málsins.

Ég var að vitna til þess sem gerðist á haustmánuðum 2008 þar sem Bretar voru beinlínis bréflega og fleiri ESB-þjóðir, að því er við höfðum upplýsingar um, uppi með hótanir, sem ég kalla svo, um að EES-samningnum eða hlutum hans yrði hleypt í uppnám ef Íslendingar gæfu ekki eftir í Icesave-deilunni. Ég vissi af þessu bæði í gegnum samstarf okkar, þáverandi formanna stjórnmálaflokkanna, sem hittumst daglega og einnig vegna veru minnar í utanríkismálanefnd, en um þetta var ekki mikið talað á þeim dögum. Það er fyrst í desembermánuði eða lok nóvember sem gögn koma fram um þetta opinberlega. Síðan hafa þau legið fyrir og þeim mun furðulegra er nú að menn telji þetta nýjar fréttir. Það hefur legið fyrir í skjölum frá því að þingsályktunartillagan um heimild til samninga um Icesave var (Forseti hringir.) hér til umfjöllunar, bæði í greinargerð með tillögunni, í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar þáverandi og í framsöguræðu, hygg ég, (Forseti hringir.) þáverandi formanns utanríkismálanefndar, Bjarna Benediktssonar.