138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

hótanir, Evrópusambandið og Icesave.

303. mál
[14:23]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Ég óskaði eftir því á fundi utanríkismálanefndar í gær við starfsmenn og ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins að við fengjum rök fyrir því af hverju ekki megi birta skjölin. Ég bað um að fá rök fyrir hverju einasta skjali. Ég held að það mundi hjálpa hæstv. utanríkisráðherra ef hann gæti sýnt fram á hverjir banna að við fáum að lesa þessi gögn. Ég óska eftir að við þessari beiðni verði brugðist nú þegar.

Þá hef ég sent formlega beiðni til hæstv. fjármálaráðherra um að þessi gögn verði gerð opinber. Ég hef ekki fengið nein svör frá honum, ég hef sent honum beiðnina í tvígang. Ég óska jafnframt eftir því að fá rök fyrir hverju einasta skjali, fá málefnaleg rök fyrir því af hverju við fáum ekki að sjá þetta, af hverju þjóðin fær ekki að sjá þessi mikilvægu gögn.