138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

hótanir, Evrópusambandið og Icesave.

303. mál
[14:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég held að þetta bréf hafi verið sent þann hinn sama dag og Bretar gripu til þess að loka íslenskum banka og í kjölfarið hrundi íslenska bankakerfið. Mig minnir að þetta hafi verið sent sama dag eða alla hina sömu.

Á Íslandi voru allir sem vettlingi gátu valdið í stjórnkerfinu, hvort heldur það var utanríkisráðherra, aðrir ráðherrar eða þáverandi forsætisráðherra, önnum kafnir við að mótmæla með sínum harkalegasta hætti þessum gerningum þeirra allra svo það liggi alveg ljóst fyrir. Ég held að allir ráðherrar þessa daga, þar með talinn sá sem situr fyrir aftan hv. þingmann, hafi gert allt það sem þeir gátu til að koma með sem hörðustum hætti á framfæri mótmælum sínum við framferði Breta á þeim tíma.

Hv. þingmaður taldi að ég hefði farið hér með flím þegar ég gat þess að hæstv. fjármálaráðherra hefði í ræðu sinni, þegar hann loksins fékk tóm fyrir frammíköllum hv. þingmanna, talað um að það væru engin ósköp á ferðinni ef það yrði til þess að róa þingmenn. Mig langar þá til að lesa hér úr ræðu hæstv. fjármálaráðherra, með leyfi forseta, sem hann segir þegar þessum kafla er að ljúka:

„Það eru engin ósköp á ferðinni og vonandi get ég þar með róað hv. þingmenn.“

Bara svo það liggi ljóst fyrir að ég var ekki hér með nokkrum hætti að búa til.

Ég held að sú ræða sem hv. þm. Eygló Harðardóttir flutti hérna áðan hafi falið í sér kjarna þessa máls. Það liggur alveg ljóst fyrir að auðvitað var þetta ógeðfelld atlaga að íslenskum hagsmunum og þó að það komi ekki beinlínis fram í bréfi Bretanna liggur á bak við það sú hugsun að framkvæmdastjórnin grípi til þess með einhverjum hætti að taka einhverja parta EES-samningsins úr sambandi.

Af því að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson taldi að ég væri hér eitthvað að (Forseti hringir.) verja Evrópusambandið — ég hef aldrei verið að verja það en rétt er hjá hv. þingmanni að ég tel að við eigum að vera þar inni — var það (Forseti hringir.) framkvæmdastjórnin sem felldi þetta strax áfram. Ég hef aldrei gert neitt með það.