138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

flutningur verkefna til sýslumannsins á Patreksfirði.

125. mál
[14:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þáverandi forsætisráðherra skipaði þann 15. mars 2007 nefnd sem er ætlað að fjalla um leiðir til að styrkja atvinnulíf á Vestfjörðum. Þessi nefnd var skipuð í framhaldi af viðræðum fulltrúa sveitarfélaga á Vestfjörðum við ríkisstjórnina sem þá hefur farið fram. Nefndinni var m.a. ætlað að gera tillögur um mögulegan flutning starfa frá höfuðborgarsvæðinu til Vestfjarða. Hún lagði síðan fram tillögur sem voru teknar til meðhöndlunar í ríkisstjórn og þar var skýrslan í raun og veru afgreidd. Þar gat að líta mjög margar tillögur og góðu heilli hafa þær langflestar komist í framkvæmd, ekki þó alveg allar. Þær hafa haft veruleg áhrif á stöðu atvinnulífs á Vestfjörðum eins og menn sjá og taka eftir. Það fer ekkert á milli mála að þessi ákvörðun ein og sér hafði gríðarleg áhrif fyrir Vestfirði sem sést best á því að í þeim viðræðum sem við þingmenn höfum til að mynda átt við sveitarstjórnarmenn núna á þessu hausti hefur komið mjög glögglega fram áhersla þeirra á að ekki verði hvikað frá því að halda áfram og hrinda í framkvæmd þeim verkefnum sem enn er ólokið.

Meðal þeirra tillagna sem þarna litu dagsins ljós, og var raunar tillaga nr. 2 í tillögupakka nefndarinnar, var efling sýslumannsembættanna á Ísafirði, Bolungarvík og Patreksfirði. Þar er m.a. sagt að gert verði ráð fyrir því að greiðsla meðlaga og annarra gjalda sem Tryggingastofnun ríkisins hefur nú milligöngu um verði færð til sýslumannsins á Patreksfirði. Síðar í þessari skýrslu er gerð nánari grein fyrir þessu og er eftirfarandi sagt, með leyfi virðulegs forseta:

„Greiðsla meðlaga og annarra gjalda sem Tryggingastofnun ríkisins hefur milligöngu um verði færð til sýslumannsins á Patreksfirði.“

Þessar greiðslur snerta ekki bætur almannatrygginga og þá er ekki nauðsynlegt að Tryggingastofnun greiði þær út. Í dag koma þrjár mismunandi stofnanir að málsmeðferðinni en það eru sýslumenn, Tryggingastofnun og Innheimtustofnun sveitarfélaga. Með þessari breytingu verði þetta verkefni eingöngu hjá sýslumönnum og er lagt til að sýslumaðurinn á Patreksfirði haldi utan um miðlægan gagnagrunn sem settur verði upp. Markmiðið með þessu er að auka hagræðingu frá núverandi fyrirkomulagi. Ábyrgðin á framkvæmdinni á að vera hjá dómsmálaráðuneytinu og sýslumannsembættinu og gert er ráð fyrir að framkvæmdum verði hrundið í framkvæmd 1. janúar 2008 og enn fremur að það muni þýða fjögur til fimm stöðugildi, sem mundi skipta gríðarlega miklu máli og var auðvitað einn af burðarþáttunum í þeim tillögum sem voru gerðar fyrir sunnanverða Vestfirði og verða auðvitað að skoðast í samhengi við þetta.

Þessi mál heyra hins vegar undir Tryggingastofnun því að verið er að gera tillögu um breytingu á fyrirkomulagi sem snýr að Tryggingastofnun og þess vegna leyfi ég mér að spyrja hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra: Hvers vegna voru verkefni við umsýslu með meðlagsgreiðslum á landinu í heild ekki flutt til sýslumannsins á Patreksfirði eins og fyrirheit voru gefin um í skýrslu svokallaðrar Vestfjarðanefndar?