138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

flutningur verkefna til sýslumannsins á Patreksfirði.

125. mál
[14:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Óttarssyni fyrir að taka þátt í þessari umræðu og þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Oft hef ég heyrt hæstv. ráðherra tala af meiri sannfæringarkrafti, það verð ég að segja alveg eins og er, enda var hæstv. ráðherra bara að fara með gömlu þuluna sem við þekkjum þegar menn velta fyrir sér möguleikum á því að færa verkefni út á land. Þá fara af stað allir flækjufætur kerfisins og reyna að finna leiðir til að koma í veg fyrir að þetta sé gert. Menn fara í sífellda vörn gagnvart stofnunum og gæta þess að ekkert sé tekið út úr höfuðstöðvunum og sett niður einhvers staðar annars staðar, utan þeirra. Þau rök sem ég heyrði hérna voru ekki mjög sannfærandi. Það er ekki sannfærandi á 21. öldinni, með allri þeirri samskiptatækni sem við höfum þar sem verið er að vinna verkefnin vítt og breitt í stórum húsum innan sömu stofnunar, að ekki sé hægt að færa verkefni af þessu tagi vestur til Patreksfjarðar.

Það getur vel verið að það sé rétt að mikilvægt sé að hafa eitt miðlægt greiðslukerfi. Þá hafa menn bara eitt miðlægt greiðslukerfi og vinna í því á þeim starfsstöðvum þar sem menn telja að hægt sé að koma því fyrir. Patreksfjörður er ekkert undanþeginn í þessum efnum. Við urðum vör við það alveg frá fyrsta degi þegar þessari hugmynd var hreyft að það var ákveðin mótstaða við hana eins og alltaf gerist þegar á að færa verkefnin út á land. Ég heiti á hæstv. félagsmálaráðherra sem er vaskur maður þegar hann vill svo við hafa að hann skoði þetta mál að nýju fordæmalaust til að tryggja að staðið verið við að fjögur til fimm störf, sem gefin voru fyrirheit um á sínum tíma, verði færð úr höfuðborginni til Patreksfjarðar. Þetta mál er ekki mjög flókið, þetta snýst um að staðið verði við þessi fyrirheit. Við þekkjum það m.a. úr ráðuneyti hæstv. ráðherra að það er hægt að hafa slíka starfsemi á vegum Vinnumálastofnunar, t.d. á Skagaströnd, og Fæðingarorlofssjóður (Forseti hringir.) er norður á Hvammstanga. Það hefur tekist mjög vel til og það er góð fyrirmynd varðandi þetta mál (Forseti hringir.) sem við erum að ræða, að færa störf til Patreksfjarðar.