138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

flutningur verkefna til sýslumannsins á Patreksfirði.

125. mál
[14:41]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Fátt er fjær mér en að láta einhverja kerfisflækjufætur standa í vegi skynsamlegrar ákvörðunar í þessum málum. Því verður þó ekki mælt á móti að nefndin vanmat á sínum tíma flækjustigið við þennan tilflutning. Hún gaf sér nokkrar forsendur sem standast ekki nánari skoðun eins og þá að hægt sé að koma öllum ákvörðunum fyrir hjá einu sýslumannsembætti. Það eru aðrir sem taka ákvarðanir um meðlagsgreiðslur. Nefndin vanmat líka þá þýðingu sem ákvarðanir um meðlagsgreiðslur og túlkun á framkvæmd í þeim málum hafa t.d. varðandi almannatryggingakerfið í heild.

Hitt er svo aftur mjög mikilvægt að við munum og ætlum að standa vörð um að flutt verði störf og það verði tryggð störf úti um land. Ég hef mikinn áhuga á því að reyna að fjölga sem kostur er störfum án staðsetningar í þessu kerfi. Ég er ekki að tala um að sameina alla hluti í Reykjavík en Tryggingastofnun ríkisins er hér fyrir hendi. Ég er eindreginn talsmaður þess að fækka í þessum stofnunum, draga úr yfirstjórnarkostnaði þar með, leggja niður Sjúkratryggingastofnun og fella hana inn í Tryggingastofnun að nýju. Innheimtustofnun sveitarfélaga og Tryggingastofnun eiga auðvitað allt of mikið sameiginlegt til að það sé réttlætanlegt á aðhaldstímum að reka þær sem tvær stofnanir. Það er byrjunin. En auðvitað eru ákveðnir verkþættir sem við getum horft til hvernig við getum flutt. Ég tek mjög vel þeirri jákvæðu hvatningu sem hér kemur að ganga lengra í því efni. Ég vil halda því til haga að það hefur verið eitt af markmiðum okkar, ekki til að gera mönnum einhvern greiða heldur bara á efnislegum, rekstrarlegum forsendum, að standa vörð um störf úti um land, menn þurfa ekki að bera neinn kinnroða fyrir því. Þær ákvarðanir sem teknar hafa verið um vistun tiltekinna verkefna í stofnunum félagsmálaráðuneytisins víða um land, einkanlega í Norðvesturkjördæmi af augljósum ástæðum, hafa ágætlega staðist tímans tönn (Forseti hringir.) og það eru engar efnislegar forsendur fyrir að leggja þá starfsemi niður. Ég held að það sé mikið ánægjuefni fyrir okkur (Forseti hringir.) og þess vegna við að halda áfram á sömu braut.