138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

204. mál
[14:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Steingrímsson) (F):

Frú forseti. Mig langar að eiga orðastað við hæstv. félagsmálaráðherra um aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna sem samþykkt var sem þingsályktunartillaga á Alþingi 13. júní 2007. Spurningar mínar varðandi þetta eru tvær: Hversu vel hefur gengið að ná markmiðum þessarar aðgerðaáætlunar? Einnig langar mig að vita hversu oft samráðshópur sem var skipaður um aðgerðaáætlunina á vegum nokkurra ráðuneyta hefur komið saman og hvenær hann kom saman síðast. Sem sagt í megindráttum hversu vel hefur gengið að fylgja áætluninni og hvort hún sé enn þá virk, enda átti hún að vera til fjögurra ára.

Þetta var ansi metnaðarfull áætlun og er. Ég spyr ekki með neina klæki bak við eyra. Spurning mín er ekki drifin áfram af neinum sérstökum grunsemdum um að sérstaklega illa hafi gengið að ná markmiðum þessarar áætlunar, heldur er mér einfaldlega umhugað um að vita hvernig hefur tekist að framfylgja metnaðarfullri og góðri áætlun sem var sett árið 2007. Mér er auðvitað fullkunnugt um að ýmislegt hefur gerst í íslensku samfélagi en ég held samt að við verðum að reyna að halda okkur við efnið og ég held að sá margvíslegi vandi sem aðgerðaáætlunin átti að taka á og þær umbætur sem hún átti að skapa séu enn þá fyrir hendi. Núna t.d. horfumst við í augu við að 11.000 börn eiga atvinnulaust foreldri. Okkur berast fregnir af óróleika í skólum og varðandi barnaverndarmál hefur komið fram að vanrækslutilkynningar hafa aukist um 30%. Það er auðvitað mjög mikilvægt að halda vel utan um málaflokk barna og ungmenna.

Áætlunin var ansi metnaðarfull. Það átti að auka barnabætur. Það átti að fara í aðgerðir vegna tannverndar barna. Nú bárust fréttir af því í gær að það er aldeilis slæmt ásigkomulag í þjóðfélaginu hvað varðar tannvernd barna. Það átti að fara í námsbókastuðning. Það hefur held ég ekki gengið eftir. Nefnd um stöðu forsjárlausra og einstæðra foreldra kom saman á vegum félagsmálaráðuneytisins og skilaði niðurstöðu en það vantar enn þá réttarbætur hvað varðar stöðu þessara foreldra, stjúpforeldra og annarra. Boðað var námskeið í foreldrafærni. Fæðingarorlof átti að lengja en við sjáum það ekki alveg gerast, eða hvað? Það átti að fara í aðgerðir varðandi börn með geðraskanir og eitthvað var gert í þeim efnum. Heilsueflingu. Það átti að taka sérstaklega á börnum af erlendum uppruna. Það er mjög mikilvægt að (Forseti hringir.) halda okkur við efnið hvað það varðar.