138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

204. mál
[14:53]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Steingrímsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir svörin. Það er ánægjulegt að vita og heyra að áætlunin er enn þá í gildi og að enn sé unnið eftir henni og samráðshópur fundi.

Ég tek undir orð hv. þm. Eyglóar Harðardóttur um að margt í þessu þarf ekki að kosta peninga en við söknum þess samt, þrátt fyrir að það kosti ekki peninga, að eitthvað hafi verið gert t.d. varðandi réttarstöðu forræðislausra og foreldra sem ekki hafa lögheimili barna sinna en eru með sameiginlegt forræði og þess háttar. Mér er kunnugt um að nefnd á vegum dómsmálaráðuneytisins vinnur að úrbótum í þessum efnum en það er full ástæða til að kalla hærra eftir þeim. Eitt af markmiðum þessarar áætlunar var að gera þessar úrbætur.

Mig langar að spyrja sérstaklega út í eitt sem skýtur mjög skökku við. Samkvæmt ráðherranum gengur þokkalega að ná sumum markmiðum en eitt er alveg augljóst þarna og æpir á mann. Það er markmiðið um að lengja fæðingarorlofið. Núna þegar við erum u.þ.b. að fara að fella tillögu ráðherrans, býst ég við, hann hefur lagt til að skerða fæðingarorlofið um einn mánuð eða fresta töku fæðingarorlofs um einn mánuð, þá liggur samt fyrir að það er vilji ríkisstjórnarinnar að skera enn og aftur niður greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í þriðja skipti á einu ári. Þetta er augljóslega þvert gegn þessu markmiði um lengingu fæðingarorlofs sem ég held að sé gott markmið. Nú spyr ég hann um það, út af því að Fæðingarorlofssjóður er með sérstakan tekjustofn, hluta af tryggingagjaldi, hvort það hafi ekki hvarflað að ráðherranum að standa vörð um Fæðingarorlofssjóð með því að tryggja honum betur eða aukinn hluta af þessum tekjustofni, vegna þess að markmiðið samkvæmt (Forseti hringir.) áætlun er að lengja fæðingarorlofið. Við hljótum öll að vera sammála um að skerðing á honum er komin vel yfir sársaukamörk.