138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

uppbygging dreifnáms og fjarnáms.

139. mál
[15:07]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Forseti. Ég þakka þessa umræðu sem er nú kunnugleg vegna þess hve stutt er síðan við vorum hér í utandagskrárumræðu. Ég vil leggja áherslu á þá skoðun mína að dreif- og fjarnám sé fjölbreytni í kennsluaðferðum en ekki sértækt eða sérstakt nám. Þetta á fyrst og síðast við sem fjölbreytni í kennsluaðferðum sem skiptir máli.

Mig langar að leggja orð í belg og spyrja hæstv. ráðherra, sem á eftir að koma hér í sitt seinna svar — nú hefur verið lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 92/2008, um framhaldsskóla, þar sem fallið er frá því sem sagt er í lögunum um fjárhæð gjalds sem hægt er að nýta. Telur ráðherrann að með því frumvarpi sem hún leggur fram hér, að veita undanþágu eða með frestinum, að hún sé að koma (Forseti hringir.) til móts við dreif- og fjarnám eins og hún sér það?